Orðlaus!

Það þykir fréttnæmt ef stjórnar- og trúnaðarmannaráðsmenn innan Framsýnar eru orðlausir. Rétt í þessu var að ljúka fundi stjórnar og trúnaðarmannaráðs þar sem farið var yfir niðurstöðu kjaraviðræðna Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands sem enduðu með undirritun kjarasamnings 21. desember. Af hverju eru menn orðlausir? Menn eru orðlausir yfir lélegum og skammarlegum kjarasamningi bæði hvað varðar hækkun lægstu launa og eins skattkerfisbreytingarnar þar sem láglaunafólkið er skilið eftir. Reyndar fengu menn málið þegar líða tók á fundinn. Gylfi Arnbjörnsson fékk harða gagnrýni á fundinum svo ekki sé meira sagt enda hefur hann farið niðrandi orðum um þau félög og talsmenn þeirra sem treystu sér ekki til að skrifa undir kjarasamninginn.  Ljóst er að menn telja hann ekki valda því að vera forseti Alþýðusambands Íslands.

Kjarasamningurinn mun fara í atkvæðagreiðslu hjá félagsmönnum Framsýnar á næstu dögum og vikum. Ákveðið hefur verið að blása til sjö félagsfunda víða á félagssvæðinu auk þess að bjóða upp á sérstaka kynningu á samningnum á vinnustöðum. Helstu atriði kjarasamningsins verða einnig kynnt í Fréttabréfi stéttarfélaganna sem kemur út eftir góða viku.

Það voru óvenju margar ræður fluttar á fundi stjórnar og trúnaðarmannaráðs Framsýnar í kvöld. Mikil reiði var á fundinum.

Deila á