Nú um áramót hafa fjölmargir opinberir aðilar (ríki og sveitarfélög) hækkað gjaldskrár sínar. Rarik (Ríkið) hefur ákveðið að hækka dreifingu á rafmagni í dreifbýli um 4,5%. Ríkið hækkar bensín og díselolíu um áramót. Hækkun er 3% á vörugjaldið. Einnig mun ríkið hækka útvarpsgjald, vegabréf, sóknargjöld og innritunargjald í háskóla hækkar um 25%, úr kr. 60.000 í kr. 75.000.
Sveitarfélögin á félagssvæði stéttarfélaganna hafa gefið misskýr svör við fyrirspurnum um gjaldskrárhækkanir. Af einhverjum ástæðum telja þau ekki þörf á því að upplýsa íbúa sína um gjaldskrárbreytingar með skýrum hætti. Þegar þetta er skrifað hefur engu þeirra t.d. dottið í hug að nýta ágætar heimasíður þeirra í þessum tilgangi. Þó er vitað að sveitarstjórn Þingeyjarsveitar hefur ákveðið að taka alvarlega tilmæli um hóflegar hækkanir og ákveðið að hækka ekki gjaldskrá leikskóla. Einstaka liðir aðrir hækka þó um ca. 3%. Hjá Skútustaðahreppi hækka gjaldskrár almennt um 5%, þ.m.t. leikskólagjöld. Tjörneshreppur ætlar ekki að hækka sínar gjaldskrár. Þá hafa ekki fengist endanlegar upplýsingar frá Norðurþingi um breytingar á gjaldskrám milli ára. Í tölvupósti til stéttarfélaganna kom fram að við gerð fjárhagsáætlunar ársins 2014 væri ekki gert ráð fyrir raunhækkun gjalda á veigamestu tekjustofnun sveitarfélagsins en endanleg ákvörðun yrði tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar í desember.