Þar sem ég er einn af þessum vandræðamönnum sem ekki skrifuðu undir kjarasamninginn á dögunum. Þá langar mig til að gera hreint fyrir mínum dyrum.
Ég er að koma að gerð kjarasamninga í fyrsta skipti og eftir mikla undirbúningsvinnu með formönnum Starfsgreinasambandsins, þá hlakkaði mér til að mæta til samningagerðar fyrir hönd míns fólks og ég tala nú ekki um eftir frábært þing Starfsgreinasambandsins sem haldið var á Akureyri. Jú nú átti að standa saman og berjast af alefli gegn láglaunastefnunni og útrýma fátækt á íslandi. Út af þessu þingi gekk ég ásamt mínum varaformanni og sagði ég þá við hann það verður eitthvað rosalegt sem kemur út úr svona samstöðu. En hvað gerðist jú samstaðan brást og við létum Samtök Atvinnulífsins valta yfir okkur á stífbónuðum skónum.
Mikið rosalega getur maður verið barnalegur að trúa því að góðir hlutir geti gerst. Ég trúi því að við getum gert góða hluti öll saman og með samstöðu eru okkur allir vegir færir en ég er hræddur um að staða okkar sé ekki sterk ef við förum hvert fyrir sig gegn þessu afli sem Samtök Atvinnulífsins eru.
Að mínu mati er ekki hægt að tala um þjóðarsátt þegar aðeins er um að ræða Alþýðusamband Íslands og Samtök Atvinnulífsins og yfir okkur hanga yfirlýsingar frá kennarasambandinu að ekki verði unað við svona samninga af þeirra hálfu.
Við erum að semja við sjávarútveg sem skilar 80 milljörðum í hagnað á meðan kennarar eru að semja við ríki og sveitafélög sem eru í flestum tilfellum að berjast í bökkum og hafa ekki borð fyrir báru.
Hvernig eiga þau að bregðast við þessum auknu útgjöldum sem verða af væntanlegum samningum kennara. Jú þeirra möguleikar til að mæta þessu er að hækka gjaldskrár sínar sem að sjálfsögðu bitnar á mínu fólki sem fær nánast ekkert í sinn vasa út úr sínum samningum.
Ég heyrði forseta ASÍ segja að ef farið hefði eftir okkar tillögum þá hefði bilið breikkað meira en í þessum samningum og kostað 14% verðbólgu.
Mér finnst þetta sérstök rök hjá manni í þessari stöðu og með hverjum stendur hann.
Samkvæmt okkar tillögum hefði 200.000 kr maðurinn farið í 220.000 kr , 1.000.000 kr maðurinn farið í 1.020.000 og meðalstjórnarmaður í SA farið úr 3.200.000 kr og í 3.220.000 kr á mánuði. En samkvæmt nýja samningnum þá fær 200.000 kr maðurinn 209.750 kr ,1000.000 fer í 1.028.000 kr og meðalstjórnarmaður í SA fer í 3.289.600 kr Láglaunamaðurinn fær 9750 kr, milljón króna maðurinn fær 28000 kr og Stjórnandinn fær 89600 kr en í okkar tillögum hefðu allir fengið 20.000 kr.
Til að bæta gráu ofan á svart þá fá þeir sem eru undir 250.000 kr á mánuði ekkert út úr skattabreytingum ríkisstjórnarinnar.
Fyrir mína parta þá get ég bara ekki samþykkt þetta sérstaklega þegar verðbólgan er um 4 % í dag þannig að þetta er í raun kaupmáttarskerðing hjá mínu fólki.
SA talar mikið um að launaskriðið sé stórt vandamál og ég er sammála þeim þar en launaskriðið er mest hjá æðstu mönnum flestra fyrirtækja á íslandi en ekki hjá venjulegum launþegum.
Eins og við vitum flest þá borgum við ekki nauðþyrftir með prósentum við borgum þær með krónum.
Hvernig væri að vera bæði með hámarkslaun og lámarkslaun.
Tökum sem dæmi Jón Jóns forstjóri hjá Ísland ehf væri með 4.000.000 kr á mánuði þá yrði hann að borga lámarkslaun uppá 25% af sínum launum sem yrðu þá 1.000.000 kr á mánuði. Í þessu dæmi er forstjórinn í raunveruleikanum en lágmarks launin fimm sinnum hærri en í raunveruleikanum.
Finnst ykkur skrítið að ég sé efins þegar átt er við svona raunveruleika.
Bestu nýárskveðjur Magnús Már Jakobsson formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur