Hvað gera þessir kallar á milljónalaunum?

Undanfarna daga hafa forseti ASÍ og formaður Félags vélstjóra og málmiðnaðarmanna farið mikinn gegn Vilhjálmi Birgissyni, verkalýðsleiðtoga á Akranesi. Ekki nóg með það heldur hafa þeir skammast út í fjölmiðla fyrir að leyfa sér að tala við Vilhjálm til að fólkið í landinu fái að heyra hans skoðanir.

Og hvað er það svo sem Vilhjálmur hefur unnið sér til saka. Jú, hann neitaði að taka þátt í því að troða ofan í kok lægst launaða fólksins í landinu kjarasamningum sem beina því í biðraðir hjá hjálpar- og góðgerðarsamtökum, sem gefa mat og aðrar nauðsynjar til bágstaddra. Það getur nefnilega enginn lifað af þeim launum sem Gylfi Arnbjörnsson og Guðmundur Ragnarsson sömdu um fyrir láglaunafólkið í landinu. Vilhjálmur talar máli fólksins sem silkihúfurnar í verkalýðshreyfingunni ætlast til að lifi á loftinu.

Ef forysta ASÍ og Starfsgreinasambandsins hefði sýnt órofa samstöðu til að bæta sérstaklega kjör hinna lægst launuðu hefði verið hægt að ná mun meiri árangri þeim til handa. Þá hefði verið hægt að ná fram meiri hækkun til hinna allra lægst launuðu. Þá hefði verið hægt að knýja ríkisstjórnina til að hækka skattleysismörkin í stað þess að koma með fáránlega prósentulækkun á miðþrepi og hækka mörk lægsta þreps – aðgerðir sem gagnast hinum lægst launuðu nákvæmlega ekki neitt. Forsætisráðherra hafði lýst sig hlynntan því að skoða hækkun skattleysismarka en augljóslega höfðu embættismenn í Fjármálaráðuneytinu sitt fram eina ferðina enn. Fjármálaráðherra verður að koma böndum á sína embættismenn – það er hann sem hefur hið pólitíska umboð en ekki embættismenn sem enginn hefur nokkurn tíma kosið til neins.

Það er fráleitt að halda því fram að hækkun lægstu launa til að draga íslenskt verkafólk upp að hungurmörkum valdi verðbólguþrýstingi og setji hagkerfið á annan endann. Geti fyrirtæki ekki borgað fólki í fullri vinnu laun sem duga fyrir húsnæði og mat eiga fyrirtækin ekki tilverurétt. Forstjórar með 3-5 milljónir í mánaðarlaun, sem ekki telja sig geta borgað starfsfólki sínu 200 þúsund á mánuði, ættu að leita sér að vinnu sem þeir ráða við. Verkalýðsleiðtogar með meira en milljón á mánuði sem telja sig hafa leyfi til að gera kjarasamninga undir hungurmörkum fyrir sína umbjóðendur hafa rofið trúnað við sína umbjóðendur og eru ekki starfi sínu vaxnir.

Svo skammast þessir fínu herrar út í Vilhjálm Birgisson, sem segir hlutina eins og þeir eru. Þeir reyna að þagga niður í honum með því að skammast út í fjölmiðla til að hræða fjölmiðla frá því að ræða við Vilhjálm. Þetta er tilraun til ritskoðunar og almennilegir fjölmiðlar hljóta að gæta þess að tala frekar oftar og lengur við Vilhjálm eftirleiðis en hingað til andspænis slíkum þöggunartilburðum.

Kjarasamningarnir sem gerðir voru nú í desember vekja upp spurningar um það hvort helstu forystumenn verkalýðshreyfingarinnar eru færir um að semja um kaup og kjör fyrir íslenskt launafólk. Ekki deila þeir kjörum með umbjóðendum sínum en þeir deila hins vegar kjörum með viðsemjendum sínum úr hópi atvinnurekenda. Þeir deila líka stjórnarsætum í lífeyrissjóðum með atvinnurekendum sem og stjórnarsætum í helstu fyrirtækjum innan samtaka atvinnurekenda. Ávöxtun lífeyrissjóðanna byggist orðið á því að hægt sé að kreista sem mestan hagnað út úr fyrirtækjunum sem ASÍ og SGS semja við um laun og kjör sinna félagsmanna.

Er hagsmunaáreksturinn kannski orðinn of stór hjá Gylfa, Guðmundi og félögum? Eða eru þeir bara svona lélegir verkalýðsleiðtogar að þeir geta ekki betur? Hvað eru þessir fínu herrar að gera allan ársins hring á sínum milljónalaunum? Eru þeir of uppteknir á stjórnarfundum í fínu fyrirtækjunum eða lífeyrissjóðunum til að sinna þeim skyldum sínum að sjá til þess að íslenskur verkalýður þurfi ekki að standa í biðröð eftir mat eins og fátæklingar í Bretlandi á tímum Viktoru drottningar á þar síðustu öld?

Auðvitað hræðast þeir Vilhjálm Birgisson og reyna að grafa undan honum. Það er vegna þess að hann afhjúpar framferði þeirra. Vilhjálmur færir fram lausnir fyrir láglaunafólkið – lausnir sem geta orðið að veruleika ef pótintátar verkalýðshreyfingarinnar geta eitt andartak hætt að hugsa um eigin afturenda og farið að hugsa um hag umbjóðenda sinna.

Þessi áhuaverða grein um kjaramál er tekin af www.timarim.is

Deila á