Fjármálaráðherra neitar atvinnulausu fólki um desemberuppbót

Niðurskurðarhnífurinn fer víða í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og bitnar hart á lágt launuðu fólki á vinnumarkaðnum. Skuldaniðurfellingarúrræðin koma tekjuhærri betur en tekjulægri hópunum, skattatillögurnar sömuleiðis svo ekki sé rætt um hækkanir á gjaldskrá sem bitna hlutfallslega meir á tekjulægri hópunum á vinnumarkaði. Þegar kemur að atvinnulausu fólki tekur steininn úr. Skorið er niður til verkefna og þjónustu við atvinnulausa, starfsendurhæfingin er skert gríðarlega og samningum um félagsleg úrræði rift. Aumasta útspilið er þó að neita atvinnulausu fólki um desemberuppbót í aðdraganda jólanna. Það er ein af undirstöðum velferðarkerfisins að grípa fólk sem dettur út af vinnumarkaði og að fólk í þeirri stöðu njóti lágmarks réttinda. Desemberuppbótin er ekki há en getur skipt sköpum fyrir fólk í jólamánuðinum. Starfsgreinasamband Íslands vísar ábyrgðinni á fjármálaráherra og krefst þess að úr þessu verði bætt strax. (sgs.is)

Deila á