Í síðasta mánuði hleypti BSRB af stað átaki sem miðar að því að hjálpa þingmönnum þjóðarinnar við að standa við kosningaloforð sín. Nú þegar hefur mikill fjöldi fólk tekið þátt í átakinu sem fer fram í gegnum einfalt krossapróf á Facebook.
Í krossaprófinu eru tíu tilvitnanir í þingmenn þjóðarinnar frá kosningabaráttunni síðasta vors. Flest ummælanna fjalla um velferðarmál. Fólk á svo að geta sér til um hver lét ummælin falla og í kjölfarið gefst fólki kostur á að senda viðkomandi þingmanni tölvupóst til að hvetja hann til að standa við umrædd kosningaloforð.
Af lestri ummælanna má glögglega sjá að þingmenn úr öllum flokkum láta sig velferðarkerfið varða og allir telja þeir að betur þurfi að gera í þeim málaflokki. Eða svo töldu þeir a.m.k. á meðan kosningabaráttunni stóð.
Nú þegar hafa um fimmhundruð manns sent þingmönnum þjóðarinnar hvatningu til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að standa við kosningaloforð sín. BSRB hvetur sem flesta til að taka krossaprófið og rifja um leið hverju lofað var síðastliðið vor og hvetja svo þingmennina til að standa við gefin loforð. Saman getum við varið velferðina í landinu.
Starfsmannafélag Húsavíkur er aðili að BSRB. Hér eru tveir félagsmenn STH á fundi í félaginu.