Í fyrsta lagi: Grátbroslegt hefur verið að fylgjast með áróðri Samtaka atvinnulífsins í yfirstandandi kjaraviðræðum. Tímamót urðu í þeirra áhróðursherferð þegar SA gaf út myndband sem var auglýst á öllum helstu sjónvarpsmiðlum landsins. Þar var því haldið fram að verkafólk með um 192.000 krónur á mánuði bæri ábyrgð á verðbólgunni í landinu frá því fyrir hrun þar sem samanburður SA náði lengra en til 2008. Þess ber að geta að forsvarsmenn SA hafa ekki áður lagst út í slíka herferð, við stjórnvöl SA í dag eru nýir herrar á góðum launum eða með allt að 9,3 milljónir á mánuði. Samkvæmt þessu bera þeir enga ábyrgð, einungis láglaunafólkið. Spaugstofan sá ástæðu til að taka fyrir og gera grín af áróðursherferð SA í vikulegum þætti á Stöð2. Grínið vakti kátínu fólks víða um land. Ekki er annað að sjá en að samtökin hafi nú lagt auglýsingunni og hætt að birta þær. Þeir fá broskarl í kladdann fyrir að hafa áttað sig á því hvað auglýsingaherferðin var arfavitlaus og ómerkileg.
Í öðru lagi:
Samtök atvinnulífsins halda því fram í Morgunblaðinu í gær að þeir séu tilbúnir að kom til móts við kröfur Starfsgreinasambandsins er varðar láglaunafólkið. Því miður eru þeir ekki spurðir nákvæmlega út í útfærsluna. Þess ber að geta að þeir hafa algjörlega hafnað kröfu Starfsgreinasambandsins um að lægsti taxtinn fari úr kr. 191.752 í kr. 212.752 eða hækki um kr. 20.000. Miðað við þeirra hugmyndir telja þeir svigrúm vera fyrir 2% hækkun.
Hvað þýðir það:
Laun verkamanna með kr. 191.752 í mánaðarlaun hækka í kr. 195.587. Þessi starfsmaður fær raunhækkun á mánuði kr. 3.835.
Laun stjórnarmanns í SA sem er með 9,3 milljónir samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar hækkar um kr. 183.000 á mánuði miðað við sömu forsendur.
Sé tekið mið af meðaltalslaunum stjórnarmanna í SA sem eru um 3 milljónir á mánuði hækka þau laun miðað við sambærilegar forsendur um 60 þúsund á mánuði.
Síðan tala forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins um að gera vel við láglaunafólk. Það skal endurtekið að þeir hafa hafnað kröfu Starfsgreinasambandsins um hækkun sem kemur lægstu töxtunum upp fyrir kr. 200.000. Þeir hafa ýjað að því að færa hópa til í launatöflu til hækkunar en ekki nefnd mögulegt svigrúm.
Miðað við fyrri skilaboð SA er verið að tala um 2000 króna hækkun til viðbótar hjá einhverjum láglaunahópum, hugsanlega hjá fiskvinnslufólki en eins og alþjóð veit hefur Íslenskur sjávarútvegur malað gull síðustu ár og gæti án efa stórhækkað laun fiskvinnslufólks en það hefur ekki verið gert. Þess í stað hafa verið reglulegar fréttir af arðgreiðslum fyrirtækjanna til hluthafa. Já, lífið er ekki alltaf sanngjarnt.
Þetta er fólkið sem ber ábyrgð á þróun verðbólgunar á síðustu árum að mati SA. Mánaðarlaun fiskvinnslufólks sem er með 30 ára starfsreynslu er kr. 212.159.