Vorið 2012 hóf Flugfélagið Ernir áætlunarflug til Húsavíkur. Heimamenn fögnuðu ákvörðun flugfélagsins enda höfum við Þingeyingar aldrei efast um mikilvægi þess að búa við góðar samgöngur og því lagt mikla áherslu á þær. Um þessar mundir hefur flugfélagið Ernir flogið með um 15.000 farþega milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Með þessari stuttu grein er ætlunin að hvetja alla heimamenn til að nýta sér þennan ferðamöguleika og tryggja þar með áframhaldandi flugsamgöngur til Húsavíkur.
Framsýn stéttarfélag hefur fylgst með framvindu mála og með ályktunum bent á mikilvægi áætlunarflugsins fyrir svæðið. Til að fylgja eftir áherslum Framsýnar hefur félagið gert samning við flugfélagið Erni um magnkaup á flugmiðum sem gerir það að verkum að félagið fær miðana á hagstæðu verði. Framsýn kaupir töluvert magn af flugmiðum af flugfélaginu og selur þá áfram til félagsmanna. Með samningnum vilja Flugfélagið Ernir og Framsýn vekja athygli almennings á flugsamgöngum um Húsavíkurflugvöll og hversu nauðsynlegar flugsamgöngur eru fyrir samfélagið í heild.
Ég sem formaður Framsýnar er mjög ánægður með að félagið hafi náð þessum samningi við flugfélagið sem verður vonandi til að efla flugið um Húsavíkurflugvöll. Félagsmönnum Framsýnar bjóðast nú flugmiðar á ótrúlega góðu verði eða kr. 7.500 með sköttum á milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Í störfum mínum fyrir verkalýðshreyfinguna hef ég komist að því að kjarabætur leynast víða, ekki síst í samningum eins og Framsýn hefur nú gert fyrst allra stéttarfélaga við Flugfélagið Erni. Nánari upplýsingar um samninginn er hægt að nálgast á heimsíðu stéttarfélaganna www.framsyn.is og hjá Skrifstofu stéttarfélaganna. Ástæða er til að óska félagsmönnum til hamingju með þennan samning sem gildir til 30. apríl 2014 og verður þá endurskoðaður.
Aðalsteinn Á. Baldursson