Flugfélagið Ernir og Framsýn stéttafélag Þingeyinga undirrituðu síðdegis samning sem felur í sér gríðarlega kjarabót fyrir félagsmenn Framsýnar stéttafélags. Viðræður þessa efnis hafa staðið yfir undanfarnar vikur og eru forsvarsmenn Flugfélagsins Ernis mjög ánægðir með útkomuna. Með samningnum getur Framsýn keypt ákveðið magn flugmiða á mjög góðu verði og geta félagsmenn nýtt sér þá miða á því verði sem um samdist til flugs milli Reykjavíkur og Húsavíkur.
Með þessu vilja Flugfélagið Ernir og Framsýn vekja athygli almennings á flugsamgöngum um Húsavíkurflugvöll og hversu nauðsynlegar flugsamgöngur eru fyrir samfélagið í heild.
Fleiri samningar af þessum toga eru í pípunum og verða kláraðir á næstu dögum. Það eru samningar við önnur stéttafélög um land allt sem tengjast áfangastöðum Flugfélagsins Ernis, sem eru auk Húsavíkur, Vestmannaeyjar, Höfn í Hornafirði, Bíldudalur og Gjögur. Þannig stuðlar Ernir að enn frekari möguleikum almennings til að nýta þær almenningssamgöngur sem innanlandsflugið er. Vonast Flugfélagið Ernir eftir því að auka farþegastreymi um sína áfangastaði töluvert og gefa fleirum kost á því að fljúga og kynnast þeim þægindum, tímasparnaði og öðrum sparnaði sem flugið hefur för með sér. Nánar verður fjallað um samninginn hér á heimasíðunni á morgun.
Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Á. Baldursson og Ásgeir Örn Þorsteinsson sem skrifaði undir samninginn fyrir hönd Flugfélagsins Ernis voru sammála um ágæti samningssins sem þeir gengu frá í dag í einni af flugvélum flugfélagsins. Aðalsteinn segir samninginn gríðarlega mikla kjarabót fyrir félagsmenn. Stéttarfélög á Íslandi hafa ekki áður gert samning við flugfélag með sambærilegum hætti og Framsýn gerði í dag.