Það er alveg ljóst að mjög margir eru ekki hressir með þann mikla áróður sem er í þjóðfélaginu gegn hækkun lægstu launa. Sú gagnrýni kemur ekki síst úr fjármálageiranum, það er úr hörðustu átt þar sem menn hafa vaðið í peningum og skammtað sér ofurlaun á diskanna. Hér má sjá grein sem félagsmaður Framsýnar skrifaði og heimasíðan fékk leyfi til að birta. Þessi ágæta grein endurspeglar reiði verkafólks víða um land.
Kæri bankastjóri
Ég hef fylgst með umræðum undanfarna mánuði um launamál þín og þinna félaga sem berið kjör íslenskrar alþýðu svo mjög fyrir brjósti. Nú get ég ekki lengur orða bundist því mér finnst þið órétti beittir. Menn í ykkar stöðu þurfa að hafa laun, á einhverju þurfið þið að lifa, að fólk skuli ekki geta skilið það. Hvar værum við líka án ykkar? Það voruð þið snillingarnir sem reistuð landið við þegar við aularnir með einhverri fjandans óráðssíu sökktum því í sæ. Ég hef reyndar aldrei áttað mig almennilega á þeim ásökunum um að hafa tekið þátt í góðærinu. Fæstir sem búa út á landsbyggðinni fundu víst fyrir því. En án efa var þetta efnahagshrun allt saman okkur að kenna og mun ég að sjálfsögðu axla þá ábyrgð. Ég fæddist víst ekki með silfurskeið í munni kæri bankastjóri, kem úr litlu plássi á landsbyggðinni og hef frá unga aldri þurft að vinna fyrir mér hörðum höndum. Ég fór ekki út í lífið með stóra ávísun í veskinu en fékk það veganesti að heiman sem mér finnst vera minn auður, það að standa mig í lífinu og að ég ætti að gæta bróður míns.
Því er ég tilbúin að láta þig hafa hluta af mínum launum. Hef svo sem ekki úr miklu að moða en myndi svo gjarnan vilja að þú næðir endum saman, það eru nú að koma jól. Ég er tilbúin að leggja mitt af mörkum til að þú fáir þessi tæpu 300. þúsund kr. sem Kjararáð úrskurðaði þér í sumar. Þannig nærð þú einni og hálfri milljón á mánuði sem er algjört lágmark. Þú gætir að vísu reynt að stefna bankanum til að fá aðeins meira en það er bölvað vesen og vekur óþarfa athygli.
Þessir aurar sem vantaði uppá til að mánaðarlaun þín yrðu viðunandi eru reyndar meira en ég hef fyrir fullt starf, en ég starfa sem skólaliði. Mínar mánaðartekjur losa rétt 220 þúsundin . …… en það sem uppá vantar má bara taka af mér um næstu mánaðarmót, ég hef hvort sem er ekki efni á að halda jól. Bílinn minn sem er að árgerð ´98 getur fengið líka ef þú gerir þig ánægðan með hann, ég get fyllt hann af olíu fyrir þig. Að vísu er ég næstum tvo daga að vinna fyrir áfyllingunni en ég sé ekki eftir því, ekki fyrir þig. Mér finnst sanngjarnt að þú og þínir líkar haldið áfram að skara eld að ykkar köku á sama tíma og þið hrópið á torgum um hófstilltar launahækkanir og lítið svigrúm. Þið talið um 2% fyrir lýðinn í landinu, er nokkuð athugavert við það? Auðvitað skilur fólk svona inn við beinið að það hafi þurft að hækka laun forstjóra og framkvæmdastjóra hjá ríkisstofnunum um 20% afturvirkt, en við þessi óbreytti verkalýður viljum allt til vinna og áttum okkur auðvitað á því að launahækkanir okkur til handa þurfa að vera hófstilltar annars fer allt beint til andskotans aftur, það er svo oft búið að segja okkur þetta. Auðvitað erum það líka við sem þurfum að axla ábyrgð til að stöðugleikinn viðhaldist, það vitum við líka og herðum því sultarólina enn frekar. Það þarf að vera innistæða fyrir okkar launahækkunum, laun okkar Kaupleysingjana eru nefnilega tekin út af öðrum bankareikningi en þín og hinna bankastjóranna og á okkar reikningi eru víst lægri vextir. Þú myndir kannski athuga fyrir mig minn kæri svona við tækifæri hvort það sé ekki eitthvað örlítið svigrúm til að setja örlítið hærri vexti á hann. Þetta er alveg auðskilið kæri bankastjóri og ekki vil ég verða til að ógna stöðugleikanum.
Ég vona því bara að þið siglið sæmilega vel nærðir bæði á sál og líkama inn í aðdraganda jóla, þau eiga víst að vera hátíð ljóss og friðar. Ég óska þess innilega að þið bankastrákarnir eigið allavega fyrir brýnustu nauðsynjum, það er dýrt að halda jól á Íslandi í dag. Það verða víst langir listarnir hjá hjálparstofnunum fyrir þessi jól, það eru margir hér á landi sem hafa það verulega skítt og sennilegt að þeir sem um þessar mundir eru að missa húsnæði sitt upplifi ekki gleði jólanna þetta árið. En höfum ekki áhyggjur af þeim, þökk sé umræddum hjálparstofnunum, þetta lið fær alltaf nægilega mikið til að það skrimti.
Kemur jólafriðurinn hvort sem er ekki frá hjartanu?
Ósk Helgadóttir skólaliði
Tilheyri stétt Kaupleysinga, en það er alþýða manna á Íslandi sem ætlað er að halda þjóðarskútunni á floti án launa.
Baráttukonan, Ósk Helgadóttir, gerir athugsemdir við málflutning bankasstjóra sem linnulaust tala niður hækkanir til láglaunafólks í landinu sem er með um 200 þúsund á mánuði.