Fulltrúar Starfsgreinasambands Íslands með formann Framsýnar í fararbroddi lögðu síðasta þriðjudag fram á fundi með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins kröfugerð varðandi sérmál fiskvinnslufólks og starfsfólks í fiskeldi. Í kröfugerðinni er þess krafist að laun fiskvinnslufólks taki sérstökum hækkunum vegna góðrar stöðu greinarinnar. Þá er einnig tekið á starfsmenntamálum og ýmsum öðrum atriðum eins og hækkun fatapeninga og að nýtt aldursþrep eftir 10 ára starf kom inn í launatöfluna. Fulltrúar Samtaka atvinnulífsins tóku við kröfunum og sögðust ekki hafa sofnað undir ræðu talsmanns SGS á fundinum. Þar með eru samningaviðræður um sérmál fiskvinnslufólks og starfsfólks í fiskeldi hafnar. Næsti formlegi fundurinn hefur verið boðaður í Reykjavík í húsnæði Ríkissáttasemjara næsta þriðjudag kl. 12:30.