Elítan varar við launahækkunum

Þá er söngurinn byrjaður, seðlabankastjóri varar við launahækkunum til verkafólks, Samtök atvinnulífsins eru í sama gír, Morgunblaðið fjallar um kröfurnar í leiðara í gær og greiningadeildir bankanna vara jafnframt við hækkunum launa og benda jafnframt á að samningsaðilar hafi farið óvarlega 2011 þegar lægstu laun voru hækkuð sérstaklega en þau eru í dag kr. 191.752,-. Já, Elítukórinn hefur verið áberandi síðustu daga eftir að Starfsgreinasamband Íslands kynnti kröfugerð sambandsins sem nær til um 53 þúsund félagsmanna. 

Í tilefni af umræðunni síðustu daga er rétt að rifja upp harðorða ályktun 4. þings Starfsgreinasambandsins um kjaramál sem öll aðildarfélögin stóðu að, alls 19 stéttarfélög. Þar segir m.a. „Barist verður af alefli fyrir því að lagfæra kjör verkafólks svo um munar í komandi kjarasamningum!“ 

Ályktun um kjaramál

4. þing Starfsgreinasambands Íslands, haldið í Hofi á Akureyri dagana 16.-18. október 2013, telur að vegna óvissu í efnahagsmálum á næstu misserum sé ekki ráðlegt að semja til langs tíma. Þingið leggur áherslu á að í komandi kjarasamningum verði ríkisstjórnin krafin um efndir á fyrirheitum sem gefin voru í kosningabaráttunni sl. vor og bæta eiga hag heimilanna. Þing Starfsgreinasambandsins fordæmir skattabreytingar sem færa tekjuhæstu hópum samfélagsins umtalsverða skattalækkun á meðan skattbyrði láglaunahópa helst óbreytt og krefst þess að því svigrúmi sem er til skattalækkana verði ráðstafað til þeirra sem minnst hafa milli handanna. Þingið leggur áherslu á kaupmáttaraukningu í komandi kjarasamningum með sérstakri áherslu á hækkun lægstu launa og hækkun persónuafsláttar. 

Þær stéttir sem eru á lægstu töxtunum eru oftar en ekki fólk innan okkar raða. Hækkun lægstu launa er áhrifaríkasta tækið til að auka launajafnrétti þó vissulega þurfi meira að koma til. Nauðsynlegt er að meta nám betur til launa. Fjöldi launafólks hefur undanfarin ár aukið við færni sína á vinnumarkaði í gegnum styttri námsbrautir og með styrk frá starfsmenntasjóðum. Aukin menntun og hæfni starfsfólks þarf að endurspeglast í hærri launum. 

Þing Starfsgreinasambandsins vill brjóta á bak aftur þá láglaunastefnu sem hefur ríkt hér á landi á undanförnum árum og áratugum. Arðgreiðslur í útflutningsgreinum sýna hversu vel þær eru í stakk búnar til að veita starfsfólki aukna hlutdeild í þeim mikla hagnaði sem þar hefur skapast undanfarin ár. Barist verður af alefli fyrir því að lagfæra kjör verkafólks svo um munar í komandi kjarasamningum!

Deila á