Formaður gestur á félagsfundi

Í vikunni stóð Verkalýðsfélag Grindavíkur fyrir fjölmennum félagsfundi um kjaramál. Orlofsmál og breytingar á félagslögum voru einnig til umræðu. Gestur fundarins var Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar stéttarfélags. Aðalsteinn kom víða við í máli sínu, hann taldi m.a. eðlilegt að gera skammtímasamning við atvinnurekendur til eins árs vegna óvissunnar í þjóðfélaginu. Þá sagði hann frá helstu áherslum Starfsgreinasambandsins í komandi viðræðum en þing sambandsins sem haldið var nýlega ályktaði um stefnuna í kjaramálum og þá hafa vinnuhópar unnið að því að setja saman kröfugerð sambandsins sem lögð verður fram á næstu dögum. Þar kemur skýrt fram að mikilvægt sé að sækja auka kjarabætur til þeirra atvinnugreina sem gengið hafa vel og skilað verulegum hagnaði. Aðalsteinn sagði jafnframt að það væri ekkert vopnahlé í boði. Krafan væri skýr, upp með lægstu launin. Það væri ekki endalaust hægt að horfa upp á aðra hópa fá verulegar launahækkanir samhliða því sem ríkið og sveitarfélögin hækkuðu skatta og þjónustugjöld á launþega landsins. Slíkar hækkanir kæmu verst við fólk á töxtum Starfsgreinasambandsins. Þá væri hægt að halda langa ræðu um fjárlagafrumvarpið þar sem auknum sköttum s.s. í formi legugjalda á sjúkrahúsum væri velt yfir á notendur þjónustunnar. Verkalýðshreyfingin yrði að standa vörð um velferðina ætlaði hún sér að standa undir tilgangi og markmiðum hreyfingarinnar. Fundarmenn þökkuðu Aðalsteini fyrir yfirferðina og sögðust standa við bakið á hreyfingunni í baráttunni fyrir bættum kjörum félagsmanna.

Formaður Framsýnar var harðorður í ræðu sem hann hélt á félagsfundi Verkalýðsfélags Grindavíkur á dögunum. Með honum á myndinni er Magnús formaður og ritari fundarins. Góð mæting var á fundinn og líflegar umræður um fundarefnið.

Deila á