Rúmlega 130 þingfulltrúar frá 19 stéttarfélögum innan Starfsgreinasambands Íslands komu saman í Hofi á Akureyri en þar fór fram 4. Þing Starfsgreinasambands Íslands. Þingið fór vel fram og var ályktað um fjölmörg mál. Þingið hófst síðasta miðvikudag og lauk um hádegið í dg. Hér koma ályktanir þingsins.
Ályktun um ríkisfjármál
4. þing Starfsgreinasambands Íslands haldið í Hofi á Akureyri 16. – 18. október 2013 krefst þess að skattkerfið verði nýtt til tekjujöfnunar og hagsbóta fyrir þá lægst launuðu í landinu. Það er sanngirniskrafa að fólk með hæstu tekjurnar leggi hlutfallslega meira til samneyslunnar en fólk með lágar tekjur. Því leggur þing SGS áherslu á að viðhalda þrepaskiptu skattkerfi og boðaðar skattalækkanir verði nýttar til að mæta þörfum þeirra sem hafa lægstar tekjur, t.d. með því að hækka persónuafslátt.
Þing SGS krefst þess að breytingar á lífeyri eldri borgara og öryrkja miðist að því að bæta kjör þeirra sem minnst bera úr býtum. Tiltrú fólks á lífeyriskerfinu hefur minnkað vegna víxlverkana og skerðinga á milli almannatryggingakerfisins og lífeyriskerfisins. Það veldur því að fólk sjái sér síður hag í því að greiða í lífeyrissjóði alla starfsævina.
Þing Starfsgreinasambandsins mótmælir harðlega þeim auknu álögum á sjúklinga sem boðaðar eru í fjárlagafrumvarpinu. Nú á enn að hækka kostnaðinn sem hlýst af því að veikjast. Lágtekjufólk á Íslandi er þegar farið að neita sér um tannlækna- og læknaþjónustu vegna of hárra gjalda. Eðlilegra er að velferðarþjónustan sé fjármögnuð með sköttum frekar en með notendagjöldum frá veiku fólki.
Þing Starfsgreinasambandsins fagnar sérstaklega því sem kom fram í máli félags- og húsnæðismálaráðherra á þinginu að áfram verði tryggt fjármagn í vinnumarkaðsaðgerðir fyrir atvinnuleitendur. Þær hafa skilað miklum árangri á síðustu árum. Hluti af þeim árangri sem náðst hefur í baráttunni við atvinnuleysi síðustu ár má þakka ýmsum tilraunaverkefnum á vegum verkalýðshreyfingarinnar.
Þing Starfsgreinasambandsins fordæmir að stjórnvöld hafi einhliða ákveðið að grípa inn í starfskjör og kjarasamninga fiskvinnslufólks með því að fella burt greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði til fiskvinnslufyrirtækja vegna rekstrarstöðvunar af völdum hráefnisskorts. Forsenda þess er að 3. málsgrein laga nr. 19/1979 sem heimilar fyrirtækjum að senda fiskvinnslufólk heim í hráefniskorti án launa verði breytt. Starfsgreinasambandið hefur margoft boðist til að ræða breytingar á þessu fyrirkomulagi til að tryggja að fiskvinnslufólk búi við sama starfsöryggi og annað launafólk.
Ályktun um atvinnumál
4. þing Starfsgreinasambands Íslands, haldið í Hofi á Akureyri dagana 16.-18. október 2013, minnir á þau grundvallarmannréttindi að hafa aðgang að vinnu. Þó vissulega hafi náðst ákveðinn árangur í baráttunni við atvinnuleysið þá eigum við enn langt í land að ná viðunandi stöðu í atvinnumálum. Atvinnuleysi er mikið og vinna verður af hörku gegn því. Hafa verður í huga að bak við opinberar atvinnuleysistölur er falið atvinnuleysi. Launafólk hefur sótt vinnu erlendis, fallið út af vinnumarkaði, tæmt bótarétt sinn, sótt nám og tekið þátt í vinnumarkaðsaðgerðum. Það er sameiginlegt verkefni að vinna gegn atvinnuleysi með fjölbreyttum vinnumarkaðsúrræðum og fjölgun starfa.
Þing Starfsgreinasambandsins leggur jafnframt áherslu á að ný fyrirtæki, hvort sem þau eru smá eða stór, byggi upp sína atvinnustarfsemi í góðri sátt við stéttarfélög launafólks og innan þeirra reglna sem vinnumarkaðurinn hefur sett sér. Það er með öllu óþolandi að í ákveðnum atvinnugreinum þrífist svört atvinnustarfsemi og gerviverktaka í stórum stíl. Slíkt er ólíðandi og á ábyrgð okkar allra að vinna gegn. Það er vaxandi áhyggjuefni að hér á landi fjölgi þeim sem vinna svart. Þetta fólk er algjörlega réttindalaust sem er óásættanlegt. Nauðsynlegt er að halda áfram og efla samstarf verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda og ríkisskattstjóra. Þing SGS leggur áherslu á að yfirvöld fái auknar heimildir til að beita hörðum viðurlögum gegn svartri atvinnustarfsemi.
Ályktun um húsnæðismál
“Húsnæði – mannréttindi ekki forréttindi”
4. þing Starfsgreinasambands Íslands, haldið í Hofi á Akureyri dagana 16. – 18. október 2013, lýsir yfir þungum áhyggjum af slæmu ástandi húsnæðismála á Íslandi. Sífellt verður erfiðara fyrir fólk að kaupa eða leigja húsnæði og eiga fjölmargir erfitt með að standa undir hækkandi afborgunum lána eða húsaleigu. Stjórnvöld verða að koma til móts við kaupendur meðal annars í formi skattaívilnunar sem tryggir hraðari eignamyndun og huga að þeim sem misst hafa sína fasteign vegna þess að forsendur brugðust við hrun bankanna. Jafnframt leggur þingið áherslu á að húsaleigubætur verði hækkaðar og skerðingarmörkin endurskoðuð.
Þing Starfsgreinasambandsins hvetur stjórnvöld í samstarf við banka og aðrar lánastofnanir til að veita ungu fólki sérstakan stuðning til dæmis í formi sparnaðarreiknings sem myndi njóta góðra vaxtakjara og hagstæðrar skattalegrar meðferðar við fyrstu kaup á fasteign. Unga fólkið verður einfaldlega að fá tækifæri til að stíga sín fyrstu skref inn á fasteignamarkaðinn.
Þing Starfsgreinasambandsins leggur áherslu á að hér verði byggt upp húsnæðiskerfi á félagslegum grunni til að tryggja öllum viðunandi húsnæði og bendir í því sambandi á tillögur ASÍ í húsnæðismálum.
Þing Starfsgreinasambandsins krefst þess að ríkisstjórnin ásamt sveitarstjórnum hefji tafarlaust samstarf með aðilum vinnumarkaðarins til að leysa þann húsnæðisvanda sem þjóðin glímir við í dag.
Ályktun um kjaramál
4. þing Starfsgreinasambands Íslands, haldið í Hofi á Akureyri dagana 16.-18. október 2013, telur að vegna óvissu í efnahagsmálum á næstu misserum sé ekki ráðlegt að semja til langs tíma. Þingið leggur áherslu á að í komandi kjarasamningum verði ríkisstjórnin krafin um efndir á fyrirheitum sem gefin voru í kosningabaráttunni sl. vor og bæta eiga hag heimilanna. Þing Starfsgreinasambandsins fordæmir skattabreytingar sem færa tekjuhæstu hópum samfélagsins umtalsverða skattalækkun á meðan skattbyrði láglaunahópa helst óbreytt og krefst þess að því svigrúmi sem er til skattalækkana verði ráðstafað til þeirra sem minnst hafa milli handanna. Þingið leggur áherslu á kaupmáttaraukningu í komandi kjarasamningum með sérstakri áherslu á hækkun lægstu launa og hækkun persónuafsláttar.
Þær stéttir sem eru á lægstu töxtunum eru oftar en ekki fólk innan okkar raða. Hækkun lægstu launa er áhrifaríkasta tækið til að auka launajafnrétti þó vissulega þurfi meira að koma til. Nauðsynlegt er að meta nám betur til launa. Fjöldi launafólks hefur undanfarin ár aukið við færni sína á vinnumarkaði í gegnum styttri námsbrautir og með styrk frá starfsmenntasjóðum. Aukin menntun og hæfni starfsfólks þarf að endurspeglast í hærri launum.
Þing Starfsgreinasambandsins vill brjóta á bak aftur þá láglaunastefnu sem hefur ríkt hér á landi á undanförnum árum og áratugum. Arðgreiðslur í útflutningsgreinum sýna hversu vel þær eru í stakk búnar til að veita starfsfólki aukna hlutdeild í þeim mikla hagnaði sem þar hefur skapast undanfarin ár. Barist verður af alefli fyrir því að lagfæra kjör verkafólks svo um munar í komandi kjarasamningum!
Greinargerð með ályktun um kjaramál
Það er mat þings SGS að leiðrétting á launum verkafólks muni skila sér í aukinni einkaneyslu, auknum hagvexti og einnig mun veruleg hækkun lágmarkslauna skila sér í auknum skatttekjum til ríkis og sveitarfélaga. Veruleg hækkun launa verkafólks er lífsnauðsynleg fyrir samfélagið allt!
Vegna óvissu í efnahagsmálum á næstu misserum telur þing Starfsgreinasambandsins ekki ráðlegt að semja til langs tíma en skammtímasamningar hljóta hins vegar að taka mið að því að áfram verði unnið að réttindamálum launafólks á milli samninga með langtímasamninga að leiðarljósi. Með þeim hætti verði lagður grunnur að stöðugleika sem er forsenda fyrir auknum kaupmætti. Sú ábyrgð og agi sem þarf til að halda verðbólgu í skefjum og byggja undir stöðugleika í framtíðinni má ekki eingöngu vera á ábyrgð launafólks heldur verður ríkisvaldið, sveitarfélög og atvinnurekendur að sýna svo ekki verði um villst að þau ætla að axla slíka ábyrgð. Á meðan niðurskurði í velferðarþjónustu er velt yfir á launafólk í formi notendagjalda hljótum við að krefjast hærri launa til að halda kaupmætti.
Þing Starfsgreinasambandsins telur gríðarlega mikilvægt að sátt skapist um að lágmarkslaun og launataxtar verkafólks verði hækkaðir svo um munar. Það hefur lengi legið fyrir að launataxtar verkafólks eru langt fyrir neðan öll opinber framfærsluviðmið, sem gerir það að verkum að nánast útilokað er fyrir verkafólk að framfleyta sér og sínum með mannlegri reisn á þeim lágmarkslaunum sem kjarasamningar kveða á um.
Stefna Starfsgreinasambandsins í fræðslumálum
Til að auka ánægju og hæfni starfsfólks í atvinnulífinu þarf öfluga fræðslu og gott aðgengi að menntun, bæði innan ákveðinna starfsgreina og almennt. Það eru sameiginlegir hagsmunir atvinnurekenda og starfsfólks að auka hæfni og færni í atvinnulífinu auk þess sem það eru hagsmunir samfélagsins alls að bæta menntunarstig í landinu. Sameiginlegir starfsmenntasjóðir aðila vinnumarkaðarins hafa lyft grettistaki til aukinnar menntunar og færni og ber að halda áfram á þeirri braut enda vex skilningur og áhugi á fræðslu og menntun með hverju árinu. Þá hefur samspil raunfærnimats og áherslu á styttri námsbrautir aukið möguleika almenns starfsfólks í atvinnulífinu til að afla sér réttinda og hvatt til aukinnar menntunar.
Margar kannanir sem hafa verið gerðar meðal almenns starfsfólks í atvinnulífinu bera vott um mikinn áhuga á styttri námskeiðum og námsleiðum til að auka færni í starfi og möguleika til að þróast innan viðkomandi starfsgreinar.
Í fræðslumálum leggur Starfsgreinasamband Íslands áherslu á að:
- Auka fjölbreytni í námi með áherslu á styttri námsleiðir til að koma til móts við óskir fólks á vinnumarkaði.
- Skapa aðstæður til að fólk geti aflað sér starfsréttinda í áföngum.
- Nám og raunfærnimat verði metið til eininga og nýtist til áframhaldandi náms og/eða starfsréttinda.
- Tryggja gæði vinnustaðanáms í góðu samstarfi við atvinnurekendur og fræðsluaðila.
- Starfsfólk fái nám og/eða viðurkenndar námsleiðir metið til launa enda líklegt að menntun auki færni á vinnumarkaði og þá um leið framleiðni fyrirtækja.
- Auka lífsgæði fólks með fjölbreyttu framboði og aðgengi að tómstundanámi enda leiðir slíkt nám oft til frekari menntunar.
Til að ná þessum markmiðum leggur Starfsgreinasamband Íslands til að:
- Efla og þróa áfram starfsmenntasjóði aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins, ríkis og sveitarfélaga.
- Starfsgreinasambandið sé virkur þátttakandi í stefnumörkun og mótun náms fyrir atvinnulífið.
- Aðildarfélög Starfsgreinasambandsins séu leiðandi í stjórnun og stefnumörkun símenntunarmiðstöðva og annarrar fræðslustarfsemi sem tengist þeim sem minnstu menntun hafa á vinnumarkaði.
- Fulltrúar stéttarfélaganna í Starfsgreinaráðum hafi að því frumkvæði að aukið verði fjölbreytni og aðgengi að styttri námsleiðum.
- Símenntunarmiðstöðvar verði hvattar til að bjóða upp á nám sem víðast og tryggja aðgengi allra að námi.
- Viðhalda og efla þátttöku vinnumarkaðarins í því þróunarstarfi sem unnið er innan Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.
Starfsáætlun Starfsgreinasambands Íslands fyrir 2014 og 2015
Verkefni og áherslur
Þingið staðfestir að eftirfarandi atriði verði sett í forgang hjá skrifstofu Starfsgreinasambands Íslands næstu tvö starfsár. Framkvæmdastjórn og formenn sambandsfélaga skulu vinna að framgangi þessara mála.
Kjaramál
Eðli málsins samkvæmt eru kjaramál helsti málaflokkur Starfsgreinasambandsins en verkefnunum má skipta í eftirfarandi þætti:
- Undirbúningur kjarasamninga – ef til kjarasamninga kemur mun Starfsgreinasamband Íslands standa fyrir kjaramálaráðstefnum og samlesturs auk gerð viðræðuáætlana og vera sá virki samráðsvettvangur sem til er stofnað.
- Gerð kjarasamninga – á þessari stundu er ekki ljóst hvernig kjarasamningsgerð verður háttað þau tvö starfsár sem eru undir.
- Eftirfylgni með kjarasamningum – Í aðdraganda kjarasamninga 2013 voru haldnar kjaramálaráðstefnur um hvern kjarasamning og féll það í góðan jarðveg. Þá var kallað eftir fleiri slíkum ráðstefnum eftir gerð kjarasamninga þar sem svigrúm væri til að samræma túlkun. Ætla má að kjarasamningar verði undirritaðir á tímabili starfsáætlunar og fylgir því kynning á samningunum meðal starfsfólks stéttarfélaganna og úrvinnsla bókana.
Meðal áherslna í kjaramálum á milli kjarasamninga er að styrkja starfaröðun inn í samninga og tryggja tengingu náms við launahækkanir. Þá þarf að fylgjast vel með þróun atvinnulífsins á komandi vetrum og vera undirbúin undir breytingar á hlutföllum milli hins opinbera vinnumarkaðar og almenna markaðar og áhrif þess á starfsfólk innan velferðarþjónustunnar.
Fræðslumál
Fræðslumálum sem Starfsgreinasambandið sinnir má skipta í innri fræðslu og ytri. SGS nýtist til að miðla þekkingu til starfsfólks aðildarfélaganna og á milli þeirra en einnig á SGS að vera rödd fólks sem hefur ekki formlega menntun innan framhaldsfræðslukerfisins.
- Samráð starfsgreinaráða – SGS skipar fulltrúa í 7 starfsgreinaráð en þau eru misvirk. Til að efla fulltrúa SGS innan ráðanna verður samráðsvettvangi innan SGS nýttur áfram svo að fulltrúar hafi tækifæri til að ráðfæra sig hvert við annað og styrkja í einstökum starfsgreinaráðum.
- Samráð starfsfólks aðildarfélaganna – SGS heldur áfram að tryggja vettvang fyrir starfsfólk aðildarfélaganna til að hittast en skýr ósk hefur komið fram um ráðstefnu og námskeið fyrir þennan hóp.
- Mansal – Í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar gegn mansali er gert ráð fyrir samstarfi við verkalýðsfélög enda er nauðsynlegt að innan þeirra sé fólk upplýst og geti greint hugsanleg einkenni mansals á vinnumarkaði. Starfsgreinasambandið mun óska eftir styrk úr fræðslusjóði til að kynna málið meðal starfsfólks stéttarfélaga.
- Hlutastörf – Starfsgreinasambandið tekur þátt í Norrænu rannsóknarverkefni um félagleg og efnahagsleg áhrif hlutastarfa með sérstaka áherslu á kynbundinn mun hlutastarfa. Þetta verkefni verður unnið að stærstum hluta til 2014.
Upplýsingamál
Það er aðkallandi viðfangsefni að halda vinnumarkaðsmálum í almennri umræðu, miðja stöðugt upplýsingum um réttindi og skyldum til vinnandi fólks. Nýta ber SGS sem sameiginlegan vettvang í þessu skyni næstu árin í meira mæli en verið hefur.
- Ytri vefur SGS – Á vefsíðunni www.sgs.is skal birta að jafnaði tvær fréttir í viku um kjaramál og annað tengt starfseminni. Þá skulu ályktanir og umsagnir birtast þar eftir efni og ástæðum og greina skal frá því sem hæst ber hverju sinni. Síðan skal rekin sem upplýsingasíða fyrst og fremst.
- Fésbókin – SGS hefur haldið úti fésbókarsíðunni „vinnan mín“ síðastliðið ár og dreift þar molum um réttindi og skyldur á vinnumarkaði með sérstaka áherslu á árstíðarbundin réttindi svo sem desember- og orlofsuppbót, stórhátíðarálag og frídaga. Síðan hefur mælst vel fyrir en fjölga þarf áskrifendum.
- Innri vefur SGS – Innri vef SGS er ætlað að halda utanum gögn og miðla upplýsingum á milli aðildarfélaga sambandsins. Á innri vefnum hafa formenn og lykilstarfsmenn aðgang að fundargerðum framkvæmdastjórnar og formannafunda, geta varpað fram spurningum um túlkanir á kjarasamningum, fylgst með skýrslum frá fundum erlendis, leitað í fundargerðum starfsgreinaráða og svo mætti lengi telja. Innri vefur SGS þarf að vera í stöðugri þróun til að hann nýtist sem best.
- Kynningaherferðin: fyrstu skrefin – Það vakti töluverða athygli þegar Starfsgreinasambandið birti lista yfir einföld atriði sem fólk þarf að vita þegar tekin eru fyrstu sporin á vinnumarkaði. Ljóst er að það er full þörf á að miðla slíku á vorin þegar skólafólk hefur atvinnuþátttöku. Lagt er til að virkja aðildarfélögin í kynningaherferð í lok maí/byrjun júní til að koma upplýsingum á framfæri við ungt fólk. Ef vel tekst til gæti þetta orðið að föstum lið, að eitthvert kjaramál er tekið fyrir og aðgerðir aðildarfélaganna samræmdar til að koma skýrum skilboðum áfram.
- Kennsluefni fyrir grunn- og framhaldsskóla – Starfsgreinasambandið beiti sér fyrir því að samið verði kennsluefni fyrir efstu bekki grunnskóla og fyrstu ár framhaldsskóla til að kynna réttindi og skyldur á vinnumarkaði. Þetta má gera í samstarfi við Félagsmálaskóla Alþýðu, hugsanlega Námsgagnastofnun og fleiri. Verkefnið er háð því að fá styrk frá Þróunarsjóði Námsgagna.
Einstaka mál
Starfsgreinasambandið er vettvangur til að fjalla um einstaka mál út frá sjónarmiðum almenns og sérhæfðs verkafólks, hvaða áhrif samfélagslegar breytingar hafa á vinnuumhverfi og kjaramál þessa hóps. Því eru hér nefnd nokkur atriði sem óskað hefur verið eftir að SGS taki til umfjöllunar á næsta tímabili en á eftir að útfæra nánar. Leitast verður við að hafa samstarf við aðrar hreyfingar launafólks, opinberar stofnanir og frjáls félagasamtök í útfærslu einstara atriða.Þau voru fulltrúar Framsýnar á þinginu, Aðalsteinn, Kristbjörg, María og Einar Magnús Einarsson.