Grænmeti og ávextir hækka mest milli ára

Matvara sem verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á þann 30. september sl. hefur hækkað í verði frá sambærilegri könnun sem gerð var í byrjun október 2012 hjá flestum verslunum. Nettó hefur þó oftar lækkað verð en hækkað. Áberandi er að ávextir og grænmeti hafa hækkað miklu meira en aðrir vöruflokkar eða um allt að 66%. Sem dæmi um aðrar vörur sem hafa hækkað í verði er KEA skyrdrykkur sem hefur hækkað um 1-15%, hangiálegg frá Búrfelli hefur hækkað um 5-16%, Swiss miss m/sykurpúðum um 5-25% og rófur um 13-45%.

Nettó hefur lækkað verð oftast
Verslunin Nettó hefur oftar lækkað verð en hækkað, 25 vörutegundir af 49 hafa lækkað, verð stendur í stað á fjórum en hefur hækkað á 20.  Sem dæmi um lækkanir hefur vara eins og lax lækkað um 10% á milli ára, Gerber eplasafi um 16% og Merrild kaffi um 4%. Nóatún er sú verslun sem er oftast með sama verð og í fyrra, eða í 14 tilvikum af 59, Fjarðarkaup í 13 tilvikum af 55, 10-11 í 12 tilvikum af 41 og Samkaup-Strax í 10 tilvikum af 25. Iceland hefur oftast allra hækkað verð á vörum síðan í fyrra, í kjölfarið fylgja Bónus, Krónan og Samkaup-Úrval. 

Sjá nánari niðurstöður í töflu

Þær verðbreytingar sem hér eru birtar miða við breytingar á verði verslana milli verðkannana verðlagseftirlits ASÍ þann 1.10 2012 og 30.09 2013. Rétt er að árétta að mæld eru þau verð sem eru í gildi á hverjum tíma í versluninni og geta tilboðsverð haft áhrif á verðbreytingar einstakra vara. 

Verðbreytingar eru skoðaðar í eftirtöldum verslunum; Bónus, Krónunni, Nettó, Iceland, Fjarðarkaupum, Hagkaupum, Samkaupum-Úrval, Samkaupum-Strax, Kaskó, 10-11, Kjarval og Nóatúni. 

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu.

Deila á