Fiskvinnslan greiði hærri laun (mbl.is)

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður verkalýðsfélagsins Framsýnar á Húsavík, segist finna fyrir miklum þrýstingi frá starfsfólki sem starfar í fiskvinnslu að það fái að njóta í launum þess að vel gengur í sjávarútveginum. Það sé líka orðið tímabært að ferðaþjónustan greiði hærri laun.

„Ég finn fyrir því að það er sterk krafa hjá okkar fólk að þær atvinnugreinar sem ganga vel greiði hærri laun. Við sjáum í fjölmiðlum að það hefur verið methagnaður í sjávarútvegi á undanförnum árum. Þessi hagnaður hefur að litlu leyti skilað sér til fiskvinnslufólks, en hefur skilað sér til sjómanna vegna þess að þeir eru hlutaráðnir.

Það gengur líka vel í ferðaþjónustunni og hún þarf að fara að greiða hærri laun. Við viljum ekki að þessi mikilvæga atvinnugrein borgi léleg laun. Við þurfum atvinnugreinar sem greiða góð laun,“ sagði Aðalsteinn.

Starfsgreinasambandið heldur þing á Akureyri í næstu viku þar sem farið verður yfir kröfugerðina. Starfsgreinasambandið samanstendur af 19 félögum og fara 16 þeirra saman, en Flóabandalagið, þ.e. félög verkafólks í Reykjavík, Hafnarfirði og Keflavík, standa saman að kröfugerð eins og verið hefur síðustu ár. Verkalýðsfélögin á Húsavík og Akranesi sömdu sér í síðustu kjarasamningum, en þau standa núna að sameiginlegri kröfugerð með Starfsgreinasambandinu. (Þessi frétt er á mbl.is í dag)

Deila á