Nýjustu tölur af vinnumarkaði benda til þess að mun meiri gangur sé í honum um þessar mundir en raunin var í fyrra, og virðist staða hans ekki hafa verið betri síðan fyrir hrun. Stingur þetta talsvert í stúf við nýlegar tölur frá eftirspurnarhlið hagkerfisins. Á sama tíma og dregið hefur úr atvinnuleysi og starfandi fólki er að fjölga, sem ætti að öllu jöfnu að ýta undir vöxt í einkaneyslu, benda nýlegir hagvísar til þess að lítill vöxtur sé í einkaneyslu.
Mikil fjölgun á starfandi
Ofangreinda þróun af vinnumarkaði má sjá í tölum úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands fyrir ágúst sl. sem birtar voru í morgun. Samkvæmt könnuninni var atvinnuleysi 4,4% í ágúst sl. samanborið við 5,7% á sama tíma í fyrra. Sé tekið mið af fjölda einstaklinga án atvinnu þá voru þeir 8.300 talsins í ágúst í ár en höfðu verið 10.100 í ágúst í fyrra. Mun meiri breyting var á fjölda starfandi, en á sama tímabili fjölgaði þeim úr 166.300 í 180.000 og hlutfall starfandi óx úr 74,4% í 79,3%.
Sé tekið mið af fyrstu átta mánuðum þessa árs hefur atvinnuleysi samkvæmt könnun Hagstofunnar að jafnaði mælst 5,7% samanborið við 6,7% á sama tímabili í fyrra. Á sama tíma hefur fjöldi starfandi farið úr 169.100 í 174.400, og hlutfall starfandi úr 75,6% í 77,%. Þessi fjölgun starfandi hefur jafnframt leitt til þess að heildarvinnustundum, sem er mælikvarði á ársverk, hefur fjölgað töluvert á milli ára. Vinnuvikan hefur hins vegar lítið breyst. Hefur heildarvinnustundum í hagkerfinu fjölgað um 3,4% á milli ára sé tekið mið af fyrstu átta mánuðum ársins, og er óhætt að segja að það sé dágóð aukning.
Úr takti við hagvaxtarþróunina
Í fyrra stóðu heildarvinnustundir í hagkerfinu í stað á fyrstu átta mánuðum ársins frá sama tíma árið áður. Miðað við ofangreindan 3,4% vöxt í heildarvinnustundum í ár virðast umsvifin í hagkerfinu töluvert meiri en í fyrra, og mætti ætla að hagvöxtur væri að sama skapi hraðari nú. Kemur þessi mikla breyting töluvert á óvart enda benda aðrar hagtölur til hins gagnstæða, þ.e. að vöxtur innlendri eftirspurnar sé hægari í ár en í fyrra.
Vísbendingar eru um að dregið hefur úr vexti einkaneyslunnar eins og getið er um hér að ofan, og fjárfesting hefur dregist saman á milli ára eftir nokkurn vöxt í fyrra. Þó ber að halda til haga að fjárfesting atvinnuvega, að skipum og flugvélum undanskildum, jókst nokkuð á fyrri helmingi ársins. Aðrar hagstærðir sem má nefna í þessu samhengi eru hægur raunvöxtur kortaveltu einstaklinga, lækkun Væntingavísitölu Gallup á 3. ársfjórðungi, vöxtur í innflutningi neysluvara er lítill og að lokum má nefna að færri hafa leyft sér þann munað að fara út í utanlandsferðir á þessu ári en þeir gerðu á sama tíma í fyrra.
Ýmsar hugsanlegar skýringar
Þessi mismunur í þróun hagvaxtar og heildarvinnustunda gæti verið vegna þess að ónákvæmni er í tölum um hagvaxtarþróunina, og að hugsanlega verði þær tölur endurskoðaðar til hækkunar. Er þetta sú skýring sem Seðlabankamenn hafa talið líklegasta. Hitt er hins vegar einnig mögulegt að vinnumarkaðstölur Hagstofunnar séu með skekkju, en þær byggja á spurningakönnun sem eðli hefur í sér umtalsverð skekkjumörk. Þróun þeirra virðist hins vegar nokkuð stöðug undanfarið, sem gerir þessi skýringu minna trúverðuga. Þriðja skýringin kann síðan að vera sú að hvort tveggja sé rétt og að framleiðni vinnuafls í hagkerfinu sé í raun að dragast saman. Það hljómar ekki trúverðugt að okkar mati. Loks mætti tína til að ef fjölgun starfa er fremur í láglaunastörfum en öðrum verður að sama skapi minni aukning í kaupmætti þeirra sem fara af bótum eða námslánum í slík störf en ella væri. Tíminn mun væntanlega leiða í ljós hvar hundurinn liggur grafinn í þessu efni. (Heimild: Greiningadeild Íslandsbanka)
Nýjustu tölur af vinnumarkaði benda til þess að mun meiri gangur sé í honum um þessar mundir en raunin var í fyrra, og virðist staða hans ekki hafa verið betri síðan fyrir hrun. Hér eru tveir öðlingar sem hafa mikið að gera. Þetta eru þeir Aðalsteinn og Benedikt en þeir starfa báðir hjá Norðlenska á Húsavík við sauðfjárslátrun sem nú er í fullum gangi.