Byggja hótel á Húsavík

Félagið Stracta konstruktion stefnir að því að hefja byggingu á tíu hótelum víðsvegar um landið, en í síðustu viku hófust framkvæmdir við fyrsta hótelið sem byggt verður á Hellu. Næst í röðinni eru Húsavík og hótel í landi Orustustaða, nálægt Skaftafelli í Skaftárhrepp. Heildarfjárfesting við hótelin gæti verið í kringum 12 milljarða. Stracta er í eigu Hreiðars Hermannssonar, byggingameistara og föðurs Hermanns Hreiðarssonar, fótboltamanns.

Hótel með mikla afþreyingu

Í samtali við mbl.is segir Hreiðar að hugmyndin með að byrja á Hellu sé að þar vanti í dag hótel og að nágrennið bjóði upp á mikla afþreyingu. Hugmyndin sé að gera alla umgjörð kringum hótelin þannig að fólk stoppi í þrjá til fimm daga og geti gert út skoðunar- og afþreyingarferðir frá hótelinu. Nefnir hann að staðsetningin sé mitt á milli Ingólfsfjalls og Víkur. Hægt sé að fara í Þórsmörk, að Heklu, í Landmannalaugar og gullna hringinn frá þessari staðsetningu. Segir hann að leitað verði til þjónustuaðila á svæðinu til að byggja upp afþreyingu fyrir gesti.

Framkvæmdir hafnar á Hellu

Byrjað var á jarðvegsvinnu í síðustu viku og segir Hreiðar að farið verði fljótlega í uppsteypun og gert sé ráð fyrir að framkvæmdir klárist við hótelið næsta vor og hægt verði að opna 1. maí á næsta ári. Áætlar hann að kostnaður vegna hvers hótels verði í kringum 1,2 milljarður, en um 130 herbergi verða á hverjum stað.

Húsavík og Skaftárhreppur næst í röðinni

Nú þegar sé verið að vinna að skipulagsmálum varðandi uppbyggingu á Húsavík, en þar er verið að skoða að hafa samvinnu við golfvöllinn. Þá segir hann að einnig sé skipulagsvinna við hótel í landi Orustustaða í Skaftárhrepp sé langt á veg komin. Í framhaldinu verði svo unnið á stöðum þar vöntun sé á gistipláss, en hann segir að þeir hafi greint hvar þrýstingurinn sé hvað mestur. Meðal annarra staða sem fyrirhugað er að opna hótelin á eru Stykkishólmur, Sauðárkrókur, Egilsstaðir, í Árnessýslu, Hólmavík, Vestmannaeyjar og Hornafjörður.

Hingað til aðeins lagt eigið fé í verkefnið

Byrjað var að vinna að hótelverkefninu í október á síðasta ári að sögn Hreiðars, en 12 manns starfa hjá Stracta að því. Hann segir að hugmyndin sé að byggja hótelin í herragarðsstíl, þar sem móttökuhúsið er á tveimur hæðum, en annað gistirými sé í húsum á einni hæð sem tengjast aðalbyggingunni með glergöngum.

Aðspurður um fjármögnun verkefnisins segir hann að hingað til hafi þetta komið úr eigin vasa, en að þegar uppbygging þessa fyrsta hótels sé komin langt af stað, þá verði leitað til fleiri fjárfesta. Segir hann að margir fjárfestar vilji sjá að verkefni séu meira en bara hugmyndir og að eigið fé sé einnig sett í framkvæmdirnar, sem sé staðan með þetta verkefni.

Hermann og norskir fjárfestar

Þá telur Hreiðar víst að Hermann, sonur hans, muni koma inn í verkefnið á næstunni, þegar hægist á fótboltanum, en Hermann spilar með og þjálfar meistaraflokkslið ÍBV. Þegar Hreiðar er spurður að því hvort um fjármálastofnanir eða aðra áhættufjárfesta sé að ræða segir hann að meðal annars hafi norskur aðili sýnt verkefninu mikinn áhuga, en Hreiðar var sjálfur búsettur í Noregi í þrjú ár. Segir hann að norsku fjárfestarnir séu reyndar að hrista hausinn yfir kostnaðinum við svona verkefni, en þeir telji það vera mjög lágt, enda sé verðlag nokkuð hærra í Noregi en hér á landi.

Meðal helstu markhópa verða hvatahópar, en hægt verður að leigja heilar og hálfar álmur, sem þá eru með 6, 12 eða 18 herbergjum, segir Hreiðar. Þegar hótelin verða öll klár segir hann að einnig verði horft til ferðaskrifstofa sem hugi að hringferð með viðskiptavini og geti komið við á fleirum en einum stað á hringferðinni.

Þekkja til í hótelbransanum

Þeir Hermann og Hreiðar eru ekki ókunnir gistiþjónustugeiranum. Hermann stofnaði meðal annars Kex hostel í Reykjavík ásamt Eiði Smára Guðjohnsen. Þá eiga þeir Hreiðar og Hermann einnig hótel undir nafninu Copenhagen Apartments í Kaupmannahöfn. Hreiðar á einnig byggingarfélagið Sandfell, en það verður aðalverktaki hótelbyggingarinnar.

Hætti við árið 1987 og 1990

Hreiðar segir að hann hafi lengi horft til þess að fara í hótelrekstur hér á landi, en fyrst skoðaði hann slík tækifæri árið 1987 og aftur 1990. Í bæði skiptin var um að ræða hótel á Suðurlandi. Í bæði skiptin hafi hann fallið frá áformunum vegna óhagstæðra skilyrða, en hann segir að það hafi „aldrei reynst vitglóra“ í slíkri uppbyggingu fyrr en nú. „Núna lítur þetta aftur á móti mun betur út og það er nóg af ferðamönnum,“ segir Hreiðar. (þessi frétt er tekið af mbl.is, aðeins fyrirsögnin er skrifuð af ritstjóra heimasíðunnar)

Feðgarnir Hreiðar Hermannsson og Hermann Hreiðarsson ætla að byggja upp hótelveldi á Íslandi á næstu árum með 10 hótelum.

Deila á