Tökum þátt í undirskriftarsöfnun um Reykjavíkurflugvöll

Framsýn hvetur félagsmenn og aðra landsmenn til að taka þátt í undirskriftarsöfnun um áframhaldandi veru Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni. Á föstudagsmorgun setti félagið Hjartað í Vatnsmýrinni af stað undirskriftasöfnun til stuðnings Reykjavíkurvelli á vefnum www.lending.is. Þar er skorað á Reykjavíkurborg og Alþingi að tryggja öllum landsmönnum óskerta flugstarfsemi í Vatnsmýri til framtíðar. Yfir helgina skrifuðu 18.120 manns undir áskorunina og þar af 10.000 fyrir miðnætti á föstudag. Ekki er vitað til þess að undirskriftasöfnun hafi áður farið jafn hratt af stað, segir í fréttatilkynningu frá aðstandendum undirskriftasöfnunarinnar.

Fyrr á þessu ári ályktaði Framsýn um málið og er ályktunin hér meðfylgjandi:

Ályktun
Um Reykjavíkurflugvöll

„Framsýn- stéttarfélag ítrekar áskorun félagsins til borgarstjórnar og skipulagsyfirvalda í Reykjavík að tryggja að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni.

Markmiðið verði að tryggja tilvist miðstöðvar innanlandsflugs í næsta nágrenni við helstu heilbrigðis-, mennta- og stjórnsýslustofnanir landsins. Ljóst er að flugvöllurinn gegnir veigamiklu hlutverki í samgöngumálum þjóðarinnar, ekki síst er varðar aðgengi fólks utan höfuðborgarsvæðisins að Hátæknisjúkrahúsum. Líflínan liggur í gegnum flugvöllinn.

Samkomulag ríkistjórnarinnar og borgaryfirvalda um að reisa byggð í Vatnsmýrinni er fyrsta skrefið í að leggja niður Reykjavíkurflugvöll.

Almannahagsmunir krefjast þess að friður skapist um flugvöllinn í stað þeirrar miklu óvissu sem verið hefur um framtíð vallarins samkvæmt skipulagi Reykjavíkurborgar.  

Í gegnum tíðina hefur verið byggð upp opinber þjónusta á höfuðborgarsvæðinu fyrir almannafé, ekki síst af landsbyggðinni.  Borgarstjórn Reykjavíkur ber skylda til að veita íbúum landsbyggðarinnar aðgengi að þjónustunni með sem bestum hætti.  Lokun flugvallarins í Vatnsmýrinni er ekki leiðin til þess. 

Sé það vilji borgaryfirvalda að loka flugvellinum og hunsa þannig vilja þjóðarinnar er spurning hvort borgarstjórn eigi ekki að ganga alla leið og afsala sér höfuðborgartitlinum.“

Deila á