Karlinn í brúnni er verulega argur, það hefur ekkert fiskast og trollið er fast í skrúfunni. Yfirvélstjórinn hringsnýst í vélarrúminu ráðalaus og tautar: „þetta er ekki okkur að kenna, þetta er hinum að kenna.“ Fuglarnir yfirgefa grútardallinn í leit að æti. Það er ekki laust við að uppreisnarástand ríki um borð og hásetarnir tala um að ganga frá borði í næstu landlegu, þetta gangi ekki lengur. Það er sem sagt bölvað ástand um borð í dallinum og karlinn í brúnni og yfirvélstjórinn skilja ekki neitt í neinu enda gjörsamlega sambandslausir við áhöfnina.
Þessi saga kemur upp í hugann þegar yfirlýsing Félags vélstjóra og málmtæknimanna (VM) og Farmanna og fiskimannasambandsins (FFSÍ) frá því í gær er skoðuð. Hún er undirrituð af formönnum þessara sambanda. Samböndin sjá ástæðu til að gera lítið úr hvalaskoðun og samkomulagi sem Framsýn gerði við Samtök atvinnulífsins um lágmarkskjör starfsmanna við hvalaskoðun, fyrst allra félaga. Ekki er ólíklegt að formenn þessara sambanda séu hugmyndafræðingar að þessari yfirlýsingu enda fingraför þeirra á henni greinileg.
Það hefur ekkert gengið hjá þeim eins og fram kemur í yfirlýsingunni að ganga frá samningi fyrir starfsfólk við hvalaskoðun á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess sem félagsmenn þessara sambanda á fiskiskipum, stórum sem smáum, hafa verið samningslausir í nokkur ár.
FFSÍ og VM hefur ekki tekist að semja við LÍÚ og eru því með allt í skrúfunni, blessaðir mennirnir. Ég skora á þá að hysja upp um sig brækurnar og klára kjaraviðræður við LÍÚ þar sem það er ólíðandi fyrir félagsmenn þeirra að vera samningslausir svo árum skiptir. Af hverju láta þeir ekki LÍÚ heyra það með yfirlýsingu í stað þess að ráðast að saklausu fólki norður í landi sem hefur ekki annað til saka unnið en það að vinna vinnuna sína.
Að þeirra mati er greinilega betra að skjóta sendiboðann til að fá útrás í stað þess að klára sína heimavinnu sem þeir fá ríkulega greitt fyrir. Ég veit ekki hvað þeim gengur til með þessari yfirlýsingu annað en að koma höggi á hvalaskoðun í landinu og Framsýn.
Þeir hafa í gegnum tíðina talað fyrir hvalveiðum en lítið hefur farið fyrir áhuga þeirra varðandi hvalaskoðun sem atvinnugrein enda gætir mikils hroka í garð hvalaskoðunar í yfirlýsingunni svo ekki sé meira sagt. Þá hafa verið deilur innan verkalýðshreyfingarinnar, sem skýrir afstöðu þeirra til Framsýnar, þar sem tekist hefur verið á um ýmsa þætti. Það er efni í aðra langa grein.
Í öllum kjarasamningum er getið um lágmarkskjör fyrir ákveðin störf. Í títtnefndri yfirlýsingu undrast FFSÍ og VM á því að samið hafi verið um lágmarks kauptryggingu fyrir starfsfólk við hvalaskoðun. Þetta er sama kauptryggingin og þeir sömdu um á sínum tíma við LÍÚ fyrir sína umbjóðendur á fiskiskipum. Er von að spurt sé, er ekki allt í lagi? Kauptryggingunni er ætlað að vera grunnur til hærri launa á hvalaskoðunarbátum. Til viðbótar koma yfirboranir, vaktagreiðslur og umsamdar fastar greiðslur fyrir hverja ferð. Þeir vita greinilega ekkert um þetta og hvað samkomulagið felur í sér varðandi framgang launa. Þeir ættu hins vegar að vita, fyrst þeir vitna í Herjólfssamninginn, að tímakaupið í þeim samningi fyrir svokallaða viðvaninga er kr. 1.165,-, þeir sömdu um þetta kaup. Í samningi Framsýnar er sambærilegt tímakaup kr. 1.313,-. Hvernig er hægt að finna það út að menn hafi samið af sér? Aðeins þeir sem ekki eru góðir í reikningi geta komist að þessari niðurstöðu. Hugsanlega þurfa þessir ágætu menn á endurmenntun að halda eins og ráðherrann orðaði það svo skemmtilega um árið.
Síðan er alveg kostulegt þegar gagnrýnt er að stéttarfélög leyfi sér að semja heima í héraði. En á ný speglast fáfræðin í yfirlýsingunni. Samkvæmt lögum og reglum um starfsemi stéttarfélaga er samningsumboðið í höndum viðkomandi stéttarfélaga. Velji stéttarfélögin hins vegar að vísa umboðinu til aðildarsambanda er það sjálfstæð ákvörðun.
Talandi um að nær hefði verið að vísa málinu á sameiginlegan vettvang á landsvísu er því til að svara. Hefði Framsýn gert það væri ekki komið á samkomulag um þessa starfsemi og óvíst hvenær það tækist. Þess í stað er komið á samkomulag fyrir félagsmenn Framsýnar um kjör og réttindi starfsmanna um hvalaskoðun.
Talsmenn þessara sambanda hafa ALDREI haft samband við þann sem þetta skrifar og var í forsvari í viðræðunum við Samtök atvinnulífsins til að fræðast um gerð samkomulagsins eða innihald. Þetta eru miklir menn sem vaða í villu og svima.
Það er full ástæða til að fyrirgefa þeim aðilum sem stóðu að þessari yfirlýsingu. Þeir féllu á prófinu þar sem þeir unnu ekki sína heimavinnu. Þeim hefði verið nær að gleðjast með Framsýn yfir þessum merka áfanga í stað þess að sá tortryggni meðal fólks.
Sagan á bak við samkomulagið
Þannig er að starfsmenn við hvalaskoðun á Íslandi hafa ekki haft kjarasamning fyrir sín störf fram að þessu. Félagsmenn Framsýnar hafa í gegnum tíðina þrýst á félagið að ganga frá samningi fyrir þeirra hönd. Málið er að störfin falla undir nokkra kjarasamninga. Þá eru sumir starfsmenn með heilsársráðningu meðan aðrir eru með tímabundna ráðningu yfir sumarið meðan hvalaskoðunin stendur yfir. Starfsmenn gegna mismunandi störfum í landi og á sjó s.s. almennum störfum, eftirlitsstörfum, viðhaldsstörfum skipstjórn, vélstjórn, fararstjórn og sölustörfum í landi.
Að sjálfsögðu vinnur Framsýn með sínum félagsmönnum og hóf því viðræður við hvalaskoðunarfyrirtækin á Húsavík um gerð kjarasamnings fyrir tveimur árum. Eftir árangurslausar viðræður síðasta vetur ákváðu fyrirtækin að vísa samningsumboðinu til Samtaka atvinnulífsins. Í kjölfarið hófust viðræður milli Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins um kjaradeiluna.
Framsýn hafði áður mótað kröfugerð eftir fundi með starfsmönnum fyrirtækjanna. Við mótun hennar var horft til kauptryggingar sjómanna samkvæmt kjarasamningi sjómannasamtakana og LÍÚ, ákvæða úr Herjólfssamningnum og samningum Starfsgreinasambandsins er viðkemur starfsfólki í ferðaþjónustu.
Samkomulagið sem gert var milli Samtaka atvinnulífsins og Framsýnar byggir á þessum samningum. Eins og vitað er standa hvalaskoðunarfyrirtækin ekki fyrir ferðum með vörur og bíla eins og útgerð Herjólfs og því er ekki um hliðstæð störf að ræða þegar kemur að launaröðun.
Strax var ljóst að Samtök atvinnulífsins voru ekki tilbúin að gera kjarasamning við Framsýn um þessi störf. Framsýn var ekki sátt við gang mála og vísaði því deilunni til ríkissáttasemjara sem tók við verkstjórn sem leiddi til þess að gengið var frá samkomulagi milli samningsaðila 9. ágúst 2013 um kjör starfsmanna sumarið 2013.
Í því fólst ákveðin málamiðlun, Framsýn fékk ekki kjarasamning eins og félagið hafði gert kröfu um. Þess í stað var skrifað upp á samkomulag um kjör og réttindi starfsmanna til að eyða þeirri miklu óvissu sem verið hafði um stöðu þessa fólks. Það er eftir hvaða kjarasamningi/samningum ætti að fara. Samkomulagið var undirritað 9. ágúst 2013.
Samkomulagið bætir réttarstöðu starfsmanna verulega og er mikið réttlætisspor, bæði hvað varðar kjör og eins önnur réttindi. Í ljósi þess að samningar tókust ekki fyrir upphaf vertíðarinnar í vor urðu samningsaðilar sammála um að klára sumarið með þeim hætti sem fram kemur í samkomulaginu og taka það síðan upp til skoðunar í vetur.
Það var mat Framsýnar að það væri miklu betra að ná þessu samkomulagi í stað þess að búa áfram við algjöra óvissu um kaup og kjör starfsmanna.
Þá er rétt að taka fram að kjarasamningar og eða samkomulög sem gerð eru á hverjum tíma milli stéttarfélaga og atvinnurekenda um kjör og réttindi launþega byggja á samkomulagi. Það þýðir að menn þurfa ansi oft að leita leiða með málamiðlunum til að ná saman ásættanlegum samningi fyrir báða aðila. Þetta vita þeir sem komið hafa að samningagerð í nokkra áratugi.
Góða helgi landsmenn góðir og takk fyrir að lesa þennan pistil en allt að þúsund gestir heimsækja heimasíðu stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum á hverju degi.
Með kveðju!
Aðalsteinn Á. Baldursson