Því miður eru alltof mörg dæmi um að atvinnurekendur reyni að gera launþega að verktökum til að losa sig undan kjarasamningsbundnum greiðslum. Slíkt er með öllu óheimilt nema hægt sé að sína fram á með skýrum hætti að viðkomandi sé verktaki. Því miður átta launþegar sig ekki alltaf á því hvað það þýðir fyrir þá að vera verktakar.
Ákvæði laga og kjarasamninga um laun, vinnutíma og réttindi, s.s. orlofsréttindi, uppsagnarákvæði og veikinda- og slysarétt, gilda um þá einstaklinga sem selja vinnuafl sitt á vinnumarkaði sem launamenn. Sem launamenn vinna þeir samkvæmt ráðningarsamningi undir stjórn atvinnurekanda í þeim atvinnurekstri sem hann stendur fyrir. Laun og önnur starfskjör sem leiða af kjarasamningi, lögum og ráðningarsamningi starfsmanns er endurgjald launamannsins fyrir það vinnuframlag sem hann innir af hendi í þágu atvinnurekstrar atvinnurekandans.
Atvinnurekanda ber samkvæmt lögum að standa skil á opinberum gjöldum af launum starfsmanna sinna, auk þess sem skila þarf iðgjöldum til lífeyrissjóðs og gjöldum til stéttarfélags þeirra.
Það er alltaf eitthvað um það að reynt sé að fara á svig við reglur vinnuréttarins og semja sig undan ákvæðum laga um réttindi og skyldur fólks á vinnumarkaði. Sérstaklega er áberandi að reynt er að ráða fólk til starfa sem svokallaðir verktakar, og er þá tilgangur atvinnurekandans sá að sleppa við að greiða launatengd gjöld en þess í stað greiða manni jafnvel hærra kaup.
Með verksamningi er átt við samning þar sem annar samningsaðilinn, verktaki, tekur að sér gegn endurgjaldi að sjá um framkvæmd tiltekins verks, þannig að hann ábyrgist gagnaðila sínum, verkkaupa, tiltekinn árangur af verkinu. Samningurinn er þannig milli tveggja atvinnurekenda þar sem annar atvinnurekandinn tekur að sér tiltekið verk fyrir hinn. Ráðningarsamningur er hins vegar samningur þar sem annar aðilinn, launamaður, skuldbindur sig til að vinna fyrir hinn samningsaðilann, atvinnurekanda, undir stjórn hans og á ábyrgð hans gegn greiðslu í peningum og/eða öðrum verðmætum.
Lagareglur varðandi samskipti atvinnurekanda og launafólks eru iðulega ófrávíkjanlegar og er þannig skilyrðislaust ætlað að tryggja réttindi launafólks. Því er það ekki mögulegt, svo gilt sé, að semja sig undan reglum laga eða kjarasamninga með því einu að kalla samning verksamning, heldur ræðst það af efni samningsins hvort um verksamning eða ráðningarsamning er að ræða.
Erfitt er að gefa einhlít svör við spurningunni um það hvenær einstaklingur telst launamaður og hvenær verktaki. Fjölmörg atriði koma þar til álita, og öll atriði samnings aðila verður að skoða í heild. Þættir eins og afmörkun verks í tíma, afmörkun verks frá almennri starfsemi fyrirtækis, afstaða samningsaðila til samningsins, launatengd gjöld, aðstaða, verkfæri og efni, ábyrgð á verki, áhætta, samband aðila, félagsaðild, greiðslufyrirkomulag, forföll, orlof, persónulegt vinnuframlag, sjálfstæði, skattskil, verkstjórn og vinnutími skipta máli við mat á því hvers konar samning er um að ræða.
Réttarstaða verktaka er hin sama og annarra sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur. Þeir bera sömu ábyrgð og skyldur. Réttarstaða verktaka er gerólík réttarstöðu launafólks. Verktakar njóta ekki þeirra lágmarkskjara sem samið er um á vinnumarkaði, fá ekki laun fyrir viðurkennda frídaga, fá ekki greitt orlof, desemberuppbót eða orlofsuppbót, eiga ekki rétt á launum í veikindatilfellum, eru ekki slysatryggðir, hafa ekki uppsagnarfrest, eiga ekki rétt á greiðslu launa úr Ábyrgðasjóði launa vegna gjaldþrota, réttur til atvinnuleysisbóta er takmarkaður og þeir verða sjálfir að standa skil á iðgjöldum til lífeyrissjóðs.
Nokkrir dómar hafa fallið um það hvort einstaklingar teljist vera launamenn eða verktakar. Sjá t.d. Hrd. nr. 131/1983, Hrd. nr. 1751/1983, Hrd. nr. 5/1985, Hrd. nr. 3/1987, Hrd. nr. 381/1994 og Hrd. nr. 255/1997.
Sjá einnig: Hrd. nr. 286/1998 þar sem skattyfirvöld endurákvörðuðu opinber gjöld H á þeim grundvelli að G, sem starfað hafði hjá honum, hefði verið launþegi hans en ekki verktaki. Ekki var fram komið að G hefði á þeim tíma, sem um ræddi, unnið í þágu annarra en H. Hann hafði fengið greitt tímakaup, þar sem greint var á milli dagvinnu og yfirvinnu, innt af hendi þau verk sem til féllu, verið undir stjórn H og ekki haft afnot af eigin starfstöð. Þótti samband þeirra hafa haft slík einkenni vinnusamnings, að líta yrði á greiðslur H til G sem laun. Var því staðfestur dómur héraðsdóms, þar sem kröfum H um ógildingu og breytingu ákvarðana skattyfirvalda var hafnað.
Í Hrd. nr. 58/2002 krafðist K þess að krafa, sem hún lýsti við gjaldþrotaskipti á þrotabúi G hf., yrði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í málinu var upplýst að K hafði ráðið sig til starfa hjá G hf. sem verktaki og að henni hafði frá upphafi verið ljóst að hún nyti hvorki orlofsréttinda né launa í veikindaforföllum. Þá var upplýst að K hafði staðið skattyfirvöldum skil á staðgreiðslu skatta og virðisaukaskatti sem verktaki og í einhverjum mæli dregið starfstengdan kostnað frá tekjum. Var því talið að K hefði ávallt verið ljóst, að G hf. hefði ráðið hana til starfa sem verktaka og litið á hana sem slíka, og að hún hefði sætt sig við það fyrirkomulag. Með vísan til þessa þótti ekki unnt að viðurkenna kröfu hennar sem forgangskröfu í þrotabú G hf.