Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands og Ríkisskattstjóri munu í sumar taka höndum saman á nýjan leik og ráðast í sérstakt átak til þess að hvetja bæði atvinnurekendur og launafólk til að standa rétt að samningum sín í milli. Fulltrúar aðilanna þriggja munu heimsækja vinnustaði, kanna aðstæður, veita ráðgjöf og fræðslu um viðeigandi reglur og lagaramma og hvetja bæði atvinnurekendur og launafólk til að gera nauðsynlegar úrbætur ef þurfa þykir. Yfirskrift átaksins er Leggur þú þitt af mörkum?
Athyglinni verður sérstaklega beint að litlum og meðalstórum fyrirtækjum í ýmsum atvinnugreinum og nauðsynlegra úrbóta og leiðréttingar gjalda krafist þar sem við á. SA, ASÍ og RSK hvetja forráðamenn atvinnurekstrar í landinu til að hafa tekjuskráningu sína í lagi og alla starfsmenn skráða. Jafnframt að nota vinnuskilríki þar sem það á við og fara að lögum um færslu bókhalds og skil á staðgreiðslu, virðisaukaskatti og öðrum lögboðnum gjöldum.“
Nýlega voru um 20 ferðaþjónustufyrirtæki á starfsvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum heimsótt af fulltrúum frá Ríkisskattstóra og Framsýnar. Auk þess að athuga tekjuskráningu, skil á viðeigandi sköttum voru starfsmenn skráðir niður og hvatt til úrbóta þar sem við átti. Víðast þurfti að kippa ákveðnum atriðum varðandi tekjuskráningar í liðinn svo og voru fæstir sem höfðu gert ráðningasamninga eða uppfært vinnustaðaskírteinin. Á einstaka stað þurfa rekstraraðilar að endurskoða reksturinn all verulega hjá sér varðandi skil á lögbundnum gjöldum og skráningu. Rekstraraðilar fengu ráðgjöf og hvatningu frá fulltrúunum og ábendingar um hvert frekar ætti að leita til að koma hlutunum í lag. Rekstraraðilar sýndu góðan og tóku fulltrúunum í alla staði vel. Rétt er að geta þess að fyrirtæki í ferðaþjónustu sem eru með allt sitt í lagi hafa ekki síst hvatt til þess að stöðugt eftirlit sé með fyrirtækjum í ferðaþjónustu til að tryggja eðlilega samkeppnisstöðu.
Framsýn í samráði við Ríkisskattstjóra, ASÍ og Samtök atvinnulífsins heldur uppi eftirliti með fyrirtækjum á félagssvæðinu enda allur hagur að farið sé eftir lögum og reglum í landinu.