Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins og Ríkisskattstjóri hafa í sumar tekið höndum saman á nýjan leik og ráðist í sérstakt átak til þess að hvetja bæði atvinnurekendur og launafólk til að standa rétt að samningum sín í milli.
Í átakinu er tekjuskráning fyrirtækja athuguð auk skil á viðeigandi sköttum og opinberum gjöldum. Þá er farið yfir skil á lögbundnum gjöldum til stéttafélaganna, ráðningasamningar skoðaðir og innt eftir vinnustaðaskírteinum. Starfsmenn við störf eru teknir tali og skráðir niður.
Að þessu sinni heimsóttu fulltrúar aðilanna þriggja ferðaþjónustufyrirtæki á starfssvæði Framsýnar í byrjun júlímánaðar. Víða þurfti að lagfæra ákveðna þætti varðandi tekjuskráningu, ráðningasamninga og vinnustaðaskírteini og þá voru dæmi um að endurskoða þurfi reksturinn all verulega hvað varðar skráningu og skil á lögbundnum gjöldum til stéttafélaga og ríkis. Rekstraraðilar fengu ráðgjöf og hvatningu frá fulltrúunum og ábendingar um hvert frekar ætti að leita til að koma málunum í lag.
Rekstraraðilar sýndu góðan samstarfsvilja og tóku fulltrúunum í alla staði vel.