Huld Aðalbjarnardóttir Fræðslu- og menningarfulltrúi Norðurþings hefur verið ráðin sem skrifstofu- og fjármálastjóri Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík. Huld mun hefja störf hjá stéttarfélögunum í sumar. Huld er boðin velkomin til starfa. Alls bárust 14 umsóknir um starf fjármálastjóra hjá Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík.
Fulltrúaráð stéttarfélaganna hefur ákveðið að ráða Huld Aðalbjarnardóttir í starfið og var gengið frá ráðningu hennar fyrir helgina. Huld hefur mikla reynslu af félagsmálum og rekstri. Hún er menntaður kennari auk þess sem hún hefur stundað nám í stjórnun. Hún hefur starfað sem Fræðslu- og menningarfulltrúi hjá sveitarfélaginu Norðurþingi frá árinu 2008 og haft umsjón með sviðinu og ábyrgð með:
- Fjárhagsáætlunargerð, fjárhag og rekstri sviðsins.
- Stjórnsýslulegri meðferð erinda.
- Afgreiðslu erinda samkvæmt samþykktum sveitarfélagsins.
- Ráðgjöf og samstarf við forstöðumenn stofnanna varðandi faglegan og fjárhagslegan rekstur þ.m.t. starfsmannamál.
- Samskiptum og upplýsingagjöf varðandi sviðið.
Áður starfaði hún sem skólastjóri í Öxarfjarðaskóla í átta ár. Hún starfaði sem skrifstofumaður hjá Mýflugi auk þess að kenna við Borgarhólsskóla á Húsavík. Þá var hún um tíma deildarstjóri í leikskóla í Noregi þar sem hún hafði yfirumsjón með skólastarfinu á deildinni. Í stjórnunarstörfunum hefur hún öðlast umtalsverða þekkingu á stjórnun, bókhaldi og rekstri.
Um leið og Fulltrúaráð stéttarfélaganna þakkar öllum umsækjendum fyrir áhugann sem þeir sýndu með því að sækja um starfið er Huld boðin velkomin til starfa.
Það verður mikill fengur að fá Huld Arinbjarnar til starfa hjá stéttarfélögunum. Huld hefur verið virk í félagsmálum og þekkir vel til rekstrar- og stjórnunarstarfa. Huld mun hefja störf hjá stéttarfélögunum í sumar.