Næsta mánudag og þriðjudag verður haldinn formannafundur á vegum Starfsgreinasambands Íslands á Húsavík. Fundað verður í fundarsal stéttarfélaganna. Reiknað er með um 30 formönnum og varaformönnum aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins. Alls eru 19 stéttarfélög innan sambandsins. Fundurinn hefst með því að gestur fundarins Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri Norðurþings gerir fundarmönnum grein fyrir atvinnumálum á svæðinu. Þá verða kjaramál til umræðu sem og ársreikningar sambandsins. Jafnframt verður fjallað um lagabreytingar, fræðslumál, og stofnanasamninga hjá ríkisstofnunum. Framsýn stendur síðan fyrir móttöku fyrir gestina í Sjóminjasafninu á mánudagskvöldið.