Ársfundur Stapa, lífeyrissjóðs var haldinn 16. maí í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Fundurinn var vel sóttur, en þó þurfti að gera hálftíma hlé á setningu fundar vegna ófærðar á Möðrudalsöræfum sem leiddi til tafa á mætingu fundarmanna af Austurlandi.
Á dagskrá fundarins voru hefðbundin ársfundarstörf.
Formaður stjórnar Ágúst Torfi Hauksson fór yfir skýrslu stjórnar. Kári Arnór Kárason framkvæmdastjóri fór yfir ársreikning sjóðsins og tryggingafræðilega stöðu og var ársreikningurinn samþykktur samhljóða að lokinni yfirferð. Þá kynntu fjárfestingarstjóri Arne Vagn Olsen og áhættustjóri Jóna Finndís Jónsdóttir fjárfestingar- og áhættustefnu sjóðsins.
Stjórnarkjör fór fram en skv. samþykktum sjóðsins bar að þessu sinni að kjósa tvo fulltrúar launamanna og tvo til vara og einn fulltrúi launagreiðenda og einn til vara. Af hálfu launamanna voru Björn Snæbjörnsson og Pálína Margeirsdóttir kjörin og til vara Anna María Elíasdóttir og Sverrir Mar Albertsson og af hálfu launagreiðenda var Guðrún Ingólfsdóttir kjörin aðalmaður og Gunnþór Ingvason til vara. Þá var endurskoðunarfyrirtækið Deloitte ehf. kosið til að sjá um ytri endurskoðun sjóðsins.
Þá samþykkti fundurinn tillögur til breytinga á samþykktum sjóðsins sem lagðar voru fyrir fundinn. Var m.a. um að ræða breytingar á fjölda stjórnarmanna, en þeim mun fjölgað úr 6 í 8, og mun stjórnarkjör á ársfundi 2014 taka mið af breyttum samþykktum. Aðrar samþykktarbreytingar voru smávægilegar.
Að lokum var samþykkt tillaga um hækkun á stjórnarlaunum. Fram komu tvær tillögur tillaga A og tillaga B og var tillaga B samþykkt í leynilegri kosningu.
Glærur vegna fundarins má finna hér
Ársskýrslu sjóðsins má finna hér
Athygli vakti að fulltrúar Samtaka atvinnulífsins í stjórn Stapa komu með tillögu á fundinum um verulega hækkun stjórnarlauna og toppuðu tillögu frá fulltrúa launþega í stjórn sjóðsins. Tillaga atvinnurekenda var svohljóðandi: Stjórnarlaun 80.000 kr. á mánuði, Varaformaður stjórnar 120.000 kr. á mánuði, Formaður stjórnar 160.000 kr. á mánuði og varamaður í stjórn 40.000 kr. fyrir hvern setinn fund. Þess má geta að stjórnarlaunin voru tæplega kr. 43.000,- á mánuði. Tillagan vakti hörð viðbrögð fulltrúa launamanna á fundinum. Svo fór að tillagan var samþykkt með 56% atkvæða.
Svo er að sjá hvort sömu aðilar taki vel í hækkanir verkalýðshreyfingarinnar í haust en samningar á almenna vinnumarkaðinum eru lausir í lok nóvember. Þá verður væntanlega talað um mikilvægi stöðuleikans og því verði að stilla launahækkunum í hóf. En við skulum gefa þeim tækifæri til þess að gera vel við verkafólk í haust. Þeir hljóta að hafa skilning á því eftir þessar miklu hækkanir til sín.
Þorsteinn Arnórsson og Ásgrimur Örn Hallgrímsson voru á fundinum en þeir voru fulltrúar Einingar-Iðju.