Haukamýri fékk Hvatningaverðlaun AÞ 2013

Í tengslum við aðalfund Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga sem haldinn var á Húsavík í gær voru Hvatningaverðlaun AÞ afhent í þrettánda sinn. Markmiðið með verðlaununum er að hvetja einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir til nýsköpunar og árangurs í rekstri með því að verðlauna það sem vel er gert á þessu sviði. Á síðasta ári fékk flugfélagið Mýflug þessi verðlaun.  Í ár var samþykkt að veitta Fiskeldinu í Haukamýri á Húsavík Hvatningaverðlaunin fyrir þrautseigju og útsjónarsemi við uppbyggingu mikilvægrar framleiðslustarfsemi í héraðinu.

Fiskeldið Haukamýri var stofnað árið 1996 af Jóhanni Geirssyni en fiskeldi hefur verið þar starfandi frá 1991. Fyrirtækið er nú í eigu 5 aðila. Meirihluti framleiðslunnar eða 95% fer í útflutning, ferskt með flugi til Evrópu. Árleg framleiðsla er 200 tonn en 90% framleiðslunnar eru bleikjuflök, markmiðið er að fara í 400 tonn. Frá árinu 2011 er eingöngu bleikjueldi og með vaxandi eldi hefur verið bætt við útikörum. Árið 2011 var keypt flökunarvél en fram til þess var allt handflakað. Átta manns starfa hjá fyrirtækinu í dag.

Fannar Helgi Þorvaldsson framkvæmdastjóri tók við verðlaununum fyrir hönd félagsins og þakkaði fyrir þann heiður sem fyrirtækinu væri sýndur um leið og hann sagði að fyrirtækið ætlaði sér að halda áfram að standa sig vel og byggja sig áfram upp í rólegheitum. Með honum á myndinni eru Sigurgeir Höskuldsson stjórnarformaður Atvinnuþróunarfélagsins og Reinhard Reynisson framkvæmdastjóri félagsins.

Deila á