Tækifæri og samstaða

Rétt í þessu hófust hátíðarhöld stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Mikið fjölmenni er samankomið í  Íþróttahöllinni á Húsavík. Hátíðin hófst með ávarpi formanns Framsýnar, Aðalsteins Árna Baldurssonar. Í ávarpinu kom Aðalsteinn inn á atvinnulífið í Þingeyjarsýslum og þau sóknartækifæri sem þar leynast verði rétt haldið á málum. Talaði hann um að Þingeyjarsýslurnar væru heitasta vaxtasvæðið í dag. Þá sá hann einnig ástæðu til að hvetja Þingeyinga til meiri samstöðu og bjartsýni. Nánar verður fjallað um hátíðina síðar í dag.  Hér er ræða Aðalsteins.

 Kæru félagar!

 Í upphafi vil ég bjóða ykkur öll hjartanlega velkomin til hátíðarhalda stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum og til hamingju með daginn.

Það er alltaf jafn gleðilegt að sjá hvað Þingeyingar eru virkir þegar kemur að hátíðarhöldunum 1. maí s.br. þann mikla fjölda sem er saman kominn hér í dag. Fólk á öllum aldri.

 Reyndar hafa hátíðarhöldin á Húsavík verið ein þau fjölmennustu sem haldinn eru á Íslandi á þessum alþjóðlega degi verkafólks. Fyrir það ber að þakka.

 Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum að kosningar til Alþingis voru um síðustu helgi. Úrslitin liggja fyrir og á næstu dögum eða vikum verður mynduð ný ríkistjórn.

Ég vil nota tækifærið og óska nýkjörnum þingmönnum og væntanlegri ríkistjórn velfarnaðar í krefjandi störfum fyrir land og þjóð.

Sú ríkistjórn sem nú fer frá hefur unnið markvist að því að byggja landið upp eftir hrunið sem við urðum fyrir með tilheyrandi brotsjó og erfiðleikum í kjölfarið. Uppbyggingarstarfið hefur tekið tíma og margir hafa þurft að taka á sig auknar birgðar, þrátt fyrir að hafa ekki fjárhagslega burði eða getu til þess.

Væntanleg ríkistjórn tekur nú við keflinu og er ætlað að halda uppbyggingarstarfinu áfram í anda jafnréttis og félagshyggju.

Miðað við loforð stjórnmálaflokkana fyrir kosningar eru bjartir tímar framundan. Nú er það þeirra að standa við stóru orðin og gefin loforð.

 Það er okkar að gefa þeim tækifæri til þess og veita þeim jafnframt eðlilegt aðhald. Að sjálfsögðu verður það ekki liðið að menn standi ekki við gefin fyrirheit.

Við gerum jafnframt þá kröfu að næsti forsætisráðherra verði leiðtogi allra landsmanna, verði sýnilegur og í góðum tengslum við landsmenn. Tali við fólk, ekki til fólks og hafi burði til að blása bjartsýni í brjóst landsmanna.

Ágætu tilheyrendur!

Dagurinn í dag er í sjálfum sér venjulegur dagur í okkar lífi. Hann kemur og fer. Sólin rís að morgni og sest að kveldi.

Erlingur hótelstjóri á Raufarhöfn horfir út um gluggann og sér Heimskautagerðið á Raufarhöfn rísa. Þessi merkilegi athafnamaður á sér þann draum að gerðið klárist á næstu árum og dragi til sín áhugasama ferðamenn til Raufarhafnar.

Nonni í Árholti á Tjörnesi og Einar í Lóni í Kelduhverfi skoða teikningar af nýjum fjárhúsum. Það er kraftur í félögunum og þeir hafa trú á íslenskum landbúnaði enda góðir bændur. Gangi allt eftir munu þeir hefja framkvæmdir á næstu mánuðum.

 Það er líf við Köldukvísl á Tjörnesi, þar standa yfir virkjanaframkvæmdir. Verkamenn, tæknifræðingar, tækjamenn og iðnarmenn vinna hörðum höndum við lokafrágang. Fljótlega verður stöðin tengt inn á landsnetið og hefst þá framleiðsla á rafmagni frá virkjuninni.

 Hópur manna stendur á Gónhól við Húsavík, sumir vel klæddir, enda erlendir fjárfestar þar á ferð. Þeir eru að velta fyrir sér atvinnuuppbyggingu á Bakka. Greinilegt er að þeir hafa mikinn áhuga og heyra má þá segja að þetta sé heitasta svæðið í dag til atvinnuuppbyggingar á Íslandi.

 Bergur Elías bæjarstjóri veltir því fyrir sér hvort ekki sé full ástæða til að auka tungumálakunnáttu starfsmanna Stjórnsýsluhússins á Húsavík svo sveitarfélagið verði betur í stakk búið til að taka á móti áhugasömum fjárfestum. Það er frá ólíkum þjóðlöndum s.s. Kína, Þýskalandi, Frakklandi og öðrum Evrópulöndum. Slíkur er áhuginn fyrir því að setja upp atvinnustarfsemi á Húsavík og/eða í næsta nágrenni.

 Meðan þessu öllu fer fram malar kötturinn í fangi Núpós sem hefur uppi hugmyndir um að byggja hótel og golfvöll á Grímsstöðum. Hver veit nema golfvöllurinn verði yfirbyggður miðað við hæð landsins yfir sjávarmáli.

Menn hafa áður haft uppi hugmyndir um að byggja yfir Húsavík, hvað þá yfir 18 holu golfvöll á Grímsstöðum.

 Það eru fleiri sem veðja á ferðaþjónustu. Fjárfestar skoða land sunnan Húsavíkur undir hundrað herbergja hótel og enn aðrir velta fyrir sér sjóböðum á Húsavíkurhöfða.

 Það er allt að gerast og ný glæsileg skúta Norðursiglingar siglir inn í Húsavíkurhöfn framhjá Berki Emils og félögum sem eru að prófa sig áfram með nýtt eldi á Ostrum í flóanum.

Hvalaskoðun er á uppleið og beinagrind steypireyðar sem rak á land norður á Skaga sumarið 2010 er hugsanlega á leið til Húsavíkur til sýningar í Hvalasafninu. Reyndar þarf að stækka safnið en það er hið besta mál og skapar atvinnu og eykur ferðamannastraum enn frekar til Húsavíkur.

Örlygur Hnefill yngri og fjölskylda breyta ekki vatni í vín heldur gömlu húsnæði á höfðanum í hótel. Árið 2012 opnuðu þau hótel á jarðhæð í gömlu rækjuvinnslunni. Nú er unnið að því að byggja hæð ofan á húsið.

Ef fram fer sem horfir munum við sjá gömlu rækjuvinnsluna verða að skýjakljúf á næstu árum m.v. að Örlygur og hans ágæta fjölskylda haldi áfram að byggja eina hæð á ári í takt við fjölgun ferðamanna á svæðinu.

 Það þarf einnig að huga að annarri atvinnuuppbyggingu á svæðinu og Sigmar Stefáns og hans mögnuðu starfsmenn hjá Trésmiðjunni Rein hafa reist langþráða iðngarða á Húsavík. Gott mál sem ber að fagna.

 Það sama á við um glæsilegt íþróttamannavirki sem nýlega var tekið  í notkun á Húsavík. Það er gervigrasvöllur sem á eftir að  koma sér vel fyrir samfélagið og er liður í því að laða fjölskyldufólk til Húsavíkur á komandi árum.

Vísir, GPG, Norðlenska, Fjallalamb og fiskeldisfyrirtækin á svæðinu halda sínu styrki sem betur fer enda hryggsúlan í atvinnulífinu í Þingeyjarsýslum ásamt landbúnaði.

 Handverkskonur milli heiða sem nýlega voru heiðraðar á Búnaðarsambandsþingi fyrir dugmikið starf við útbreiðslu íslensks handverks og atvinnuþróun í dreifbýli prjóna og suma sleitulaust þessa dagana og búa sig undir sumarvertíðina.

 Það sama á við um ferðaþjónustuaðila í Mývatnsveit og víðar um héraðið. Þessa dagana eru menn að taka á móti bókunum og þá eru einnig uppi hugmyndir um frekari uppbyggingu sem tengjast ferðaþjónustu í Suður-Þingeyjarsýslu.

Það er jú uppgangur í ferðaþjónustu ekki síst eftir að Flugfélagið Ernir tók ákvörðun um að hefja áætlunarflug til Húsavíkur á síðasta ára.  Um 10 þúsund farþegar hafa þegar flogið með flugfélaginu og forsvarsmenn flugfélagsins eru ánægðir með móttökurnar.

Byrjað  er á Vaðlaheiðagöngum sem ætlað er að bæta samgöngur og efla svæðið sem eitt atvinnusvæði, það er Eyjafjörð og Þingeyjarsýslur.

Unga fólkið, það er börn og unglingar á grunn- og framhaldsskólastigi hafa verið að setja upp leiksýningar og tónlistar viðburði víða um héraðið.

Við eigum fjársjóð af ungu og hæfileikaríku fólki sem hefur verið að gera verulega góða hluti. Framtíðin er björt.

Haffi Hreiðars röltir um bæinn eftir vinnu og myndar og tekur viðtöl við fólk og fer síðan heim og skrifar inn á netmiðilinn 640.is afrakstur dagsins. Þetta gerir hann í hjáverkum með annarri vinnu  sem er hans aðalstarf. Hugsanlega á hann sér þann draum að verða fjölmiðlarisi í framtíðinni, hver veit.

Meðan skera stóru fjölmiðlarnir niður  fréttaþjónustu á landsbyggðinni í sparnaðarskini, þar á meðal í okkar héraði.

Þess vegna ekki síst eru miðlar eins og Skarpur, 640.is, 641.is og framsyn.is mikilvægir miðlar fyrir svæðið. Oftar en ekki taka fjölmiðlamenn upp fréttir af þessum miðlum og gera þær að sínum sem er hið besta mál.

 Það er nefnilega mjög mikilvægt að miðla áfram til þjóðarinnar þeim krafti og sköpunargáfu sem býr í Þingeyingum. Þess vegna eru þeir miðlar sem ég hef hér nefnt afar mikilvægir og reyndar fleiri líka.  

Félagar!

Þegar ég settist niður til að skrifa ávarpið ákvað ég að vera á jákvæðu nótunum enda full ástæða til þess, þar sem við þurfum á bjartsýni að halda.

 Ég er sannfærður um að tækifærin liggja víða og helsta  vaxtarsvæði landsins á komandi árum verði hér í Þingeyjarsýslum. Hér er frábært fólk, mannauður, miklar auðlindir og einstök náttúra. Það gerist ekki betra nema þá í paradís.

Ég sem formaður í stéttarfélagi skynja mjög vel hvernig fólki líður á hverjum tíma enda í góðu sambandi við félagsmenn sem leita mikið á skrifstofuna eftir úrlausn sinna mála eða bara eftir hlustun. Fólk kallar eftir aukinni jákvæðni í samfélaginu og umburðarlindi.

 Þessi boðskapur birtist okkur í greinum í Skarpi, m.a. frá ungu fólki sem leitar eftir jákvæðum viðhorfsbreytingum og fordæmir óviðeigandi skrif, niðurrif og slæmt umtal ekki síst á netinu um menn og málefni.

Ég hjó eftir því í síðasta Skarpi þegar sá ágæti maður Ari Hafliðason var í viðtali spurður út í hvað Þingeyinga skorti mest, svaraði hann, samstöðu og jákvæðni.

Ég tek heilshugar undir með Ara og öllum þeim sem hafa hvatt mig til að koma þessum skilaboðum skýrt á framfæri hér í dag. Ég deili skoðunum mínum með þeim.

Við eigum gott samfélag og saman getum við gert það ennþá betra.

Hver dagur, hver stund skiptir miklu máli í okkar daglega lífi. Líf kviknar við sólarupprás og hnígur við sólarlag. Hver mannsæfi er stutt, því þurfum við að nota hvern dag vel og undirbúa framtíðina með það að markmiði að lifa lífinu og hafa góð áhrif á samferðamenn okkar.

Það gerum við best með því að virða skoðanir þeirra og með því að koma fram við náungann eins og við viljum að komið sé fram við okkur. Við þurfum að rækta okkur sjálf og aðra til góðra verka.

Með sanni má segja að þótt hver og einn megni smátt þá gerir samstaða og jafnrétti það mögulegt að ná árangri til betra lífs, betri afkomu og alls þess sem við viljum lifa og standa fyrir.

 Við erum ekki eyland, þess í stað erum við hluti af stærra samfélagi sem saman myndar land tækifæra.

Næring sálarinnar felst ekki í neikvæðni eða svartsýni heldur í bjartsýni og gleði.

Höfum það að leiðarljósi og byggjum saman upp gott samfélag þar sem allir eru jafnir.

Látum ekki tækifærin fara út um gluggann, beislum þau til góðra verka, okkur og samfélaginu hér í Þingeyjarsýslum til hagsbóta.

Félagar

Í lokin vil ég þakka mínu frábæra samstarfsfólki og öllum sem koma hér fram í dag fyrir þeirra framlag til að gera þessa hátíð sem glæsilegasta. Hafið þakkir fyrir. Hátíðarhöldin 1. maí eru hér með sett.

 Það er mikið fjöllmenni í Íþróttahöllinni á Húsavík þar sem hátíðarhöld stéttarfélaganna fara fram.

Deila á