Drífa með kraftmikla ræðu

Aðalræðumaður á hátíðarhöldunum á Húsavík er Drífa Snædal framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands. Drífa kom víða við í ræðu sinni eins og sjá má en hún var að ljúka ræðunni. Skoða ræðu:  

Ágætu félagar,

Barátta launafólks hefur verið sama eðlis frá því hún hófst í kjölfar iðnbyltingarinnar á þar síðustu öld. Vissulega er umgjörðin önnur í dag en hún var þá, lífsskilyrði miklu betri, lýðræðið meira, við miklu menntaðri, heilsuhraustari og upplýstari – en í grunninn er baráttan sú sama. Þetta er barátta fjöldans við valdið og stundum gegn valdinu. Valdið birtist í líki ráðherra, sveitastjórnarmanna og annarra stjórnvalda, samtökum þeirra sem eiga fyrirtæki og einstakra atvinnurekenda. Þetta þurfa ekki vera óvinir eða kúgarar en þetta er vissulega þeir sem hafa valdið, geta tekið stóru ákvarðanirnar sem snerta okkur öll, ráðið og rekið, stofnað fyrirtæki, siglt þeim í þrot eða bara breytt um kennitölu ef því er að skipta. Gegn þessu valdi stendur enginn einn einstaklingur. Það þýðir lítið að vera þessi eina manneskja sem segist ekki vinna nema hún fái hærra kaup, þessi eina manneskja sem neitar að taka kjaraskerðingu eða vinna við óviðunandi aðstæður, því það er einmitt þessi eina manneskja með vesenið sem fær að taka pokann sinn. Að ætla einni manneskju að berjast gegn valdi er aldrei sanngjarnt og ekki heldur líklegt til árangurs. Allar þær verkalýðs-, friðar- og mannréttindakempur sem við lærum um hafa haft fjöldann á bak við sig, farið fram sem fulltrúar margra og notið stuðnings sinna félaga. Oft verða þessir einstaklingar táknmyndir fyrir baráttuna en það heyr hana enginn einn og sér.

Sá árangur sem vinnandi fólk hefur náð er samstöðu að þakka. Að við höfum borið gæfu til þess að skipuleggja okkur í samtök og beita afli fjöldans til að ná því valdajafnvægi sem er forsenda samninga. Þess vegna segi ég að baráttan hafi verið sama eðlis í meira en 150 ár. Sjálf fell ég oft í þá gryfju að ímynda mér að baráttan hafi verið harðari hér áður fyrr, hún hafi verið betri og einhvernvegin sannari. Að fólk hafi verið tilbúið til að berjast meira fyrir bættum kjörum og hinum sanna verkamanni hafi með blóði sínu, svita og tárum tekist hið ómögulega. Í dag aftur á móti sitjum við endalausa fundi, skrifum skýrslur, höldum ráðstefnur – svitnum sjaldnast og ristum okkur aldrei til blóðs í baráttunni nema við skerum okkur á pappír. Vissulega var harka í Gúttóslagnum og á tímum þegar fólk hafði engu að tapa og daglaunafólk lapti dauðann úr skel. Þegar samtök launafólks voru í burðarliðnum og sýna þurfti fyllstu hörku til að marka sér samningsstöðu – og skal engan undra.

Dagbækur Elku Björnsdóttur sem gefnar voru út í fyrra veita sjaldgæfa innsýn inn í heim verkakonu við upphaf síðustu aldar. Elka gekk í öll þau störf sem buðust, ræsti skrifstofur, vann heimilisstörf fyrir fjölskyldur sem gátu borgað fyrir það og fórnaði heilsu sinni í fiskþvotti í Eyjafirði. Hún lést um fertugt jafn snauð og hún hafði fæðst en skildi eftir handa okkur merkilega annála. Hún sat fjölda funda á sínum ferli, tók þátt í stofnun Verkakvennafélagsins Framsóknar, fagnaði kosningarétti kvenna, og reyndi að ná samstöðu með öðrum konum í fiskvinnslunni til að hækka launin örlítið, í átt til þess sem karlarnir fengu, þó krafan hafi vissulega ekki verið svo „rosaleg“ að fá sömu laun fyrir sömu vinnu. Elka blessar þá daga sem gáfu 16 tíma þrældómsvinnu því ekkert var verra en atvinnuleysið og kauptryggingin var engin. Við þessar aðstæður er ekki skrýtið þó fólk hafi þurft að láta í sér heyra og á stundum hafi hlaupið harka í baráttuna. Það er líka gott fyrir okkur að rifja upp stöðuna eins og hún var til að vita hverju samtakamátturinn hefur skilað og þakka fyrir það sem gert hefur verið.

Þó okkur kunni að finnast baráttan dauf í dag þá fjallar hún mikið um það að verja það sem við höfum því það er alls ekki sjálfsagt. Þegar tilskipanir koma utan úr Evrópu sem ryðja braut starfsmannaleiga þurfum við að hafa þekkingu til að greina hætturnar sem í því geta falist. Þegar ráðist er í stórframkvæmdir sem krefjast erlends vinnuafls þurfum við að tryggja að samningar séu gerðir þannig að starfsfólkið sem kemur hingað fái sömu kjör og landsmenn því annað býður hættunni heim að lækka laun hér á landi. Eftir því sem samfélagið verður flóknara þarf hreyfing launafólks að búa yfir betri menntun, þekkingu og góðu skipulagi til búa til afl til að jafna valdahlutföllin og geta samið.

En aukin sérhæfing verkalýðshreyfingarinnar felur í sér hættur sem er nauðsynlegt að varast. Til að vera því trú að bæta kjör þeirra sem lakast standa þarf meðvitund um að það eru ekki endilega þeir sem eru háværastir. Í tíð Elku unnu konur erfiðisvinnu á við karla en fengu helming launa þeirra og það sem meira var að þær höfðu nánast enga rödd í samfélaginu og enga kjörna fulltrúa úr sínum hópi til að laga stöðuna. Í samfélagsumræðunni í dag er það ekki lægst launaða fólkið sem krefst mestu kjarabótanna, það eru forstjórar ríkisstofnana sem komast í fjölmiðla og fara fyrir dómstóla til að fá leiðréttingu kjara sinna. Fjórðungur verkafólks án fagmenntunar hér á landi eru útlendingar en það er hending að við heyrum rödd þeirra í íslenskum fjölmiðlum. Það er því ekki síst á ábyrgð fjöldahreyfingar launafólks að greina þá hópa sem standa verr að vígi í samfélaginu og rétta hlut þeirra en hlaupa ekki endilega eftir kröfum þeirra sem hæst láta hverju sinni. Því þegar upp er staðið þá gagnast það okkur öllum að hækka gólfið og jafna leikana. Þegar við hækkum laun þeirra lægst launuðu erum við jafnframt að verja það sem hefur áunnist fyrir okkur öll og bæta lífskjör almennt og það hlýtur að vera metnaðarmál. Þetta er líka það sem hreyfingin hefur gert best, að búa til samtryggingarsjóði þannig að þegar í harðbakkann slær þá á fólk bakhjarl í félögum sínum í gegnum sjúkrasjóði, starfsendurhæfingarsjóði og lífeyrissjóði.

Ágætu félagar, við erum nú í miðjum undirbúningi kjarasamninga fyrir næsta vetur og ýmislegt bendir til þess að efnahagslífið sé að hressast. Í framleiðslugreinunum heyrum við upphæðir arðgreiðslna sem hafa ekki heyrst síðan fyrir hrun og okkur er sagt að þjóðin geti sótt feitan tékka úr greipum hrægamma innan skamms. Við erum vonandi búin að læra svo mikið af hruninu að við sættum okkur ekki lengur við ofurlaun forstjóra og ofurarðgreiðslur í þeirri einu von að eitthvað muni hrynja af borðinu til launafólks. Við ætlum okkur hlutdeild í batnandi efnahag því við vitum að launafólk tók skellinn í hruninu hvort sem skellurinn birtist í hækkandi lánum, skertu starfshlutfalli, atvinnuleysi eða jafnvel launalækkun. Það er hlutverk okkar sem hreyfingar að passa að allir njóti árangurs af þeirri biðlund sem þjóðin hefur sýnt, ekki bara hin háværa millistétt eða öskrandi forstjórar heldur líka allir hinir sem þurfa svo sannarlega leiðréttingar við. Þessa leiðréttingu sækjum við ekki eitt og eitt heldur gerist það í sameiningu því það er eina aflið sem skákar sterku valdi.

Að lokum langar mig að segja að það er sannur heiður að fá að ávarpa þessa samkomu. Frá því ég byrjaði að fylgjast með einstaka verkalýðsfélögum hef ég dáðst að styrknum sem hreyfingin hér á Húsavík býr yfir, fjöldanum sem tekur þátt í starfinu og því afli sem hreyfingin er í samfélaginu. Þið getið verið stolt og ánægð með samstöðuna. Takk fyrir mig.

Deila á