Fræðandi ferð til verkalýðssamtaka í Svíþjóð

Fulltrúar úr stjórn og trúnaðarmannaráði Framsýnar auk starfsmanna fóru á eigin vegum til Svíþjóðar í síðustu viku til að kynna  sér starfsemi stéttarfélaga og réttindi verkafólks í Svíþjóð. Hópurinn kom heim í gær eftir velheppnaða ferð.  

Fulltrúar frá LO/ASÍ buðu gestunum úr Þingeyjarsýslu í heimsókn í höfuðstöðvar Alþýðusambandsins í Stokkhólmi. Þar fengu þeir fræðslu um stjórnmál og vinnumarkaðinn í Svíþjóð. Því næst hélt hópurinn í heimsókn til Livs sem eru systursamtök Starfsgreinasambands Íslands nema hvað Livs stendur einungis fyrir starfsfólk í matvælaiðnaði. Innan sambandsins eru um 35 þúsund félagsmenn. Líkt og hjá LO fóru fulltrúar Livs yfir kjör og réttindi verkafólks í Svíþjóð. Einnig var komið inn á Evrópusambandið og stjórnarfar í landinu. Fulltrúar Framsýnar þáðu matarboð hjá Livs eftir upplýsandi fund.

Verkalýðshreyfingin í Svíþjóð er greinilega ekki hrifin af hægri stjórn sem stjórnað hefur landinu frá árinu 2006. Þeir töluðu um sorglegan kafla í sögu landsins. Á tímabilinu hefði gengið verulega á réttindi verkafólks. Þeir vonuðust til að vinstri stjórn kæmist til valda í næstu kosningum enda hefðu þeir átt gott samstarf með vinstri stjórnir í gegnum tíðina.

Þá vöktu viðbrögð talsmanna verkalýðshreyfingarinnar í Svíþjóð varðandi Evrópusambandið töluverða athygli en landið er aðili að Evrópusambandinu. Miðað við það sem fram kom á kynningarfundunum með talsmönnum LO og Livs er lítil hrifning af aðildinni meðal verkalýðshreyfingarinnar. Hjá Livs kom fram að verulega hefði fækkað félagsmönnum í sambandinu á undanförnum árum sem veikt hefði verkalýðshreyfinguna. Nokkrar ástæður voru nefndar þar á meðal aðildin að Evrópusambandinu. Þá væri ekki áhugi fyrir því að taka upp Evru. Einn af þeim sem hafði framsögu um stöðu verkalýðshreyfingarinnar í Svíþjóð tók svo sterkt til orða að ef kosið yrði í dag um hvort Svíþjóð ætti að gerast aðili að Evrópusambandinu segði hann Nei.

Eftir afar velheppnaða ferð til verkalýðssamtaka í Svíþjóð fór hópurinn í Sendiráð Íslands. Gunnar Gunnarsson sendiherra ásamt hans frábæra starfsfólki bauð Þingeyingunum í heimsókn í sendiráðið. Þar fór Gunnar yfir starfsemina og dagleg störf starfsmanna sendiráðsins. Verulega hefur verið skorið niður í utanríkisþjónustunni eftir hrun og nú starfa aðeins fjórir starfsmenn við sendiráðið. Líkt og hjá LO og Livs var vel tekið á móti gestunum frá Íslandi. Alls fóru 18 félagsmenn Framsýnar í ferðina og kostuðu þau ferðina sjálf.

Fulltrúar Framsýnar hlusta með athygli á fyrirlestur frá talsmönnum LO sem hafa sama hlutverki að gegna og Alþýðusamband Íslands.

Fulltrúarnir frá Íslandi áttu einnig góðan fund með Livs sem eru systursamtök Starfsgreinasambands Íslands. Fundurinn var fræðandi og varpaði góðu ljósi á stöðu verkalýðshreyfingarinnar í Svíþjóð.

Það var mikið gengið í Svíþjóð. Hér er verið að fara á milli funda í rigningunni.

Hildur Harðardóttir sem býr í Stokkhólmi var svo vingjarnleg að túlka fyrir hópinn þegar þess þurfti með.

Gunnar Gunnarsson sendiherra fluti fræðandi erindi um starfsemi sendiráðsins.

Alls staðar var vel tekið á móti gestunum frá Framsýn. Hér eru þeir að hlýða á fyrirlestur hjá Gunnari Gunnarssyni sendiherra.

Formaður og varaformaður Framsýnar, Aðalsteinn og Kristbjörg eru hér ásamt sendiherrahjónunum. Þau eru, Gunnar Gunnarsson og Unnur Úlfarsdóttir. Framsýn þakkaði fyrir góðar móttökur og færðu sendiráðinu að gjöf ritsafnið, „Fyrir neðan bakka og ofan.“

Deila á