Til hamingju með afmælið félagar

Í dag sunnudaginn 14. apríl eru 102 ár síðan Verkamannafélag Húsavíkur var stofnað, nú Framsýn stéttarfélag. Þess vegna er full ástæða til að segja, ágætu félagsmenn til hamingju með afmælið. En förum aðeins yfir söguna.

Húsvískir daglaunamenn réðust í að stofna með sér félag um stéttbundin hagsmunamál sín 14. apríl 1911, Verkamannafélag Húsavíkur. Nokkrum árum síðar eða 28. apríl 1918 stofnuðu verkakonur á Húsavík með sér eigið félag, Verkakvennafélagið Von. Vorið 1964 sameinuðust félögin undir nýju nafni, Verkalýðsfélag Húsavíkur.

Verkalýðsfélag Raufarhafnar var stofnað árið 1967 en það sameinaðist Verkalýðsfélagi Húsavíkur þann 1. júlí 2004 undir nafni Verkalýðsfélags Húsavíkur. Þann 6. júní 2006 sameinuðust svo Verkalýðsfélag Húsavíkur og Verkalýðsfélag Öxarfjarðar undir nafninu Verkalýðsfélag Húsavíkur og nágrennis.

Verslunarmannafélag Húsavíkur var stofnað 6. september 1965. Fyrsti formaður félagsins var Guðmundur Bjarnason síðar ráðherra. Þann 1. maí 2008 sameinuðust Verkalýðsfélag Húsavíkur og nágrennis og Verslunarmannafélag Húsavíkur undir nafninu Framsýn- stéttarfélag. Félagið nær frá Vaðlaheiði í vestri, allt austur fyrir Raufarhöfn.

Rúmlega öld er liðin frá því að frumherjarnir stigu fyrstu sporin og sýndu það áræði að stofna með sér félag sem hafði það að markmiði að gæta hagsmuna verkafólks; því kjark þurfti til fyrir fátæka menn og skulduga að rísa upp og krefjast bættra kjara af vinnuveitendum sínum. Eitt af því sem okkur ber að varðveita er saga þessara manna sem mörkuðu sporin og lögðu þann grunn sem við byggjum á í dag.

Það var stór stund í Verkalýðsfélagi Húsavíkur þegar tekin var ákvörðun um á 75 ára afmæli félagsins að láta skrá sögu þess. Í júní 1991 var Þór Indriðason stjórnmálafræðingur ráðinn til að skrifa söguna þannig að hún yrði aðgengileg öllum þeim sem áhuga hefðu. Strax í upphafi var ákveðið að hún yrði ekki bara saga verkalýðsbaráttu heldur einnig saga atvinnulífs og stjórnmála á Húsavík í eina öld. Þessir þrír þættir eru það samofnir í okkar samfélagi að ekki verður skilið á milli þegar saga verkalýðsbaráttu á Húsavík er sögð.

Saga verkalýðsbaráttu á Húsavík er um margt mjög merkileg. Allt frá fyrstu tíð höfðu Verkamannafélagið og Verkakvennafélagið Von á stefnuskrám sínum að sinna kaupgjaldsmálum félagsmanna. En það var líka jafnljóst að hagsbótina mátti einnig sækja í aðra staði, hagkvæma verslun og samhjálparstarf af ýmsu tagi. Á slíkt lögðu félögin engu síðri áherslu en sjálfa kaupgjaldsbaráttuna.

Næg atvinna, öflugt mannlíf og vöxtur og viðgangur staðarins hefur alla tíð verið til umræðu á fundum félaganna. Með tímanum rótfestist sú áhersla í starfi þeirra og allar götur síðan hafa þau, og síðar Framsýn- stéttarfélag, haft mikil áhrif á alla umræðu um atvinnumál. Stéttarfélögin hafa tekið virkan þátt og jafnvel verið frumkvæðisaðili að ýmsum meiriháttar atvinnufyrirtækjum á Húsavík, fyrirtækjum sem skipt hafa sköpum fyrir viðgang Húsavíkur. Á síðari áratugum hefur viðfangsefnum íslenskrar verkalýðshreyfingar fjölgað og allt starf stéttarfélaganna orðið faglegra í eðli sínu, jafnvel sérfræðilegt í sumum tilvikum. Hreyfing verkafólks á Húsavík hefur ekki farið varhluta af þessari þróun. Sérgreinafélögum hefur fjölgað og forveri þeirra, Framsýn- stéttarfélag, hefur vaxið og eflst og starfsemi þess orðið margþættari.

Sem fyrr ber það hæst í starfi félagsins sem það tók í arf frá forverum sínum; áhersluna á vöxt og viðgang atvinnulífs, samhjálp, sem nú er rekin í mynd lífeyrissjóða og margvíslegra félagslegra réttinda og fræðslustarfs. Má jafnvel nefna að saumanámskeið eru haldin á vegum félagsins rétt eins og hannyrðanámskeiðin sem verkakvennafélagið gamla stóð fyrir á sinni tíð. Þráðurinn til upphafsins hefur ekki slitnað. Velferð verkalýðsstéttarinnar og samfélagsins alls er enn þann dag í dag það markmið sem félagið setur í öndvegi. Um 2000 félagsamenn eru í Framsýn- stéttarfélagi.

Með afmæliskveðju!

Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar

Deila á