Í síðustu viku lauk fimm daga þingi NNN sem haldið var í Osló. Verkalýðssamtökin NNN standa fyrir starfsfólk í matvælaframleiðslu í Noregi. Þingfulltrúar voru um tvö hundruð, auk gesta frá verkalýðssamtökum og stjórnmálaflokkum í Noregi og erlendum gestum frá verkalýðssamtökum víða um heim sem eru í samstarfi við NNN. Meðal gesta á þinginu var Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar. Aðalsteinn fór á vegum Starfsgreinasambands Íslands á þingið en NNN eru systursamtök Starfsgreinasambandsins á Íslandi. Meðal annarra gesta má nefna að Jens Stoltenberg forsætisráðherra Noregs heiðraði samkomuna og hélt magnaða ræðu.
Þingstörfin gengu vel og voru um 200 þingfulltrúar á þinginu auk um 50 gesta, þar af voru 18 erlendir gestir. Þingið var ekkert ólíkt þingum Starfsgreinasambands Íslands er varðar málefni og afgreiðslur; Fjármál sambandsins voru til umræðu, kjaramál, félagsleg undirboð, atvinnumál, starfsmenntamál, lög sambandsins og gengið var frá kosningum til trúnaðarstarfa fyrir sambandið.
Jafnframt urðu töluverðar umræður um samgöngumál, landbúnaðarmál og þá staðreynt að fyrirtæki í Noregi hafa verið að flytja sína starfsemi frá landinu í leit að ódýrara vinnuafli. Innflutningsfyrirtæki eru með kröfur um að auka innflutning á landbúnaðarvörum til Noregs sem þingfulltrúar höfðu miklar áhyggjur af enda stendur NNN fyrir starfsfólk í matvælaiðnaði í Noregi. Þá töldu þingfulltrúar að hreyfingin ætti að koma í veg fyrir þann mikla útflutning sem væri á óunnum fiski frá Noregi til annarra landa þar sem hann væri fullunninn. Fiskvinnslufólki í Noregi hefur í kjölfarið fækkað verulega, sérstaklega á síðustu 10 árum og atvinnuleysi aukist. Greinilegt var að fulltrúar fiskvinnslufólks á þinginu töldu sjómenn og samtök þeirra ráða of miklu í sjávarútvegi á kostnað fiskvinnslufólks. Litlar umræður urðu um Evrópusambandið en NNN hefur fram að þessu verið á móti inngöngu í sambandið.
Ný tækni var notuð á þinginu, allir fundarmenn fengu ipad á borðið með gögnum fundarins. Þá var einnig kosið í gegnum ipadinn. Bannað var að koma með tillögur á blaði eins og þekkt er á þingum verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi. Allt var tölvukeyrt og nánast engin blöð á borðum fundarmanna. Ekki er ólíklegt að þetta kerfi verði tekið upp á Íslandi á næstu árum. Þingfulltrúar voru almennt ánægðir með þetta fyrirkomulag.
Í heildina var þingið mjög gott og voru forsvarsmenn NNN mjög ánægðir með það og þá staðreynt að konum sem sækja þingið fer fjölgandi. Þær voru um 32% fulltrúa. Þeir höfðu hins vegar töluverða áhyggjur af næstu kosningum til Stórþingsins í haust, það er að vinstri flokkarnir tapi fylgi. Þeir sem vilja fræðast betur um þingið geta farið inn á heimasíðu NNN sem er www.nnn.no
Þing NNN fór fram í síðustu viku í Osló. NNN eru systursamtök Starfsgreinasambands Íslands sem Framsýn og Verklýðsfélag Þórshafnar eiga aðild að.
Á þinginu kom fram ánægja með fjölgun kvenna á þinginu en þeim hefur fjölgað milli þinga sem haldinn eru á fjögra ára fresti. Hér er Grete Troset Salberg að flytja skýrslu um starfsemi á vegum NNN en hún er meðal þeirra kvenna sem er í stjórn sambandsins og var endurkjörin á þinginu.
Jens Stoltenberg forsætisráðherra Noregs heiðraði samkomuna og hélt magnaða ræðu. Hann er mjög vinsæl í Noregi meðal verkalýðssamtaka enda hefur hann unnið vel með henni í ýmsum málum er tengjast velferð verkafólks.
Formaður Framsýnar hefur eignast marga góða vini með þátttöku í erlendu samstarfi um verkalýðsmál. Hér er Aðalsteinn ásamt góðum félaga Svein Fjellheim sem lengi var aðstoðarmaður Jens Stoltenberg forsætisráðherra Noregs. Svein hætti nýlega störfum fyrir ráðherrann þar sem hann er kominn á eftirlaun. Þess má geta að hann var í eldlínunni þegar hryðjuverkin voru unnin í Noregi þann 22. júlí 2011 þegar sprengja sprakk í miðborg Óslóar í grennd við húsasamstæðu sem hýsir norsk ráðuneyti.
Þessir eru ekki síður góðir félagar. Arild Oliversen frá NNN, Aðalsteinn og Georg Hansen formaður Færeyska Verkamannasambandsins.