Undanfarið hefur verið unnið að því að klára alla skipulagningu vegna hátíðarhaldanna 1. maí sem fram fara í Íþróttahöllinni á Húsavík. Hátíðin hefst kl. 14:00. Það eru stéttarfélögin Framsýn, Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur sem standa að hátíðinni.
Það er óhætt að segja að það verði mikið stjörnuregn í höllinni þar sem landsþekktir og jafnvel heimþekktir listamenn koma fram. Meðal gesta sem koma fram eru, Sigríður Beinteinsdóttir, Selma Björnsdóttir, Grétar Örvarsson, Sálubót og Bjarni Hafþór Helgason. Þá verða Drífa Snædal framkvæmdastjóri SGS með hátíðarræðu og formaður Framsýnar Aðalsteinn Á. Baldursson með ávarp. Að sjálfsögðu verður Steingrímur Hallgrímsson á staðnum og spilar alþýðusöng verkalýðsins í upphafi samkomunnar. Meðan á dagskránni stendur verður boðið upp á kaffi og tertu.
Hátíð stéttarfélaganna hefur skapað sér þann sess að vera fjölmennasta samkoma sem haldin er í Þingeyjarsýslum á hverju ári. Jafnframt því að vera ein fjölmennasta hátíð sem haldin er á landsvísu á þessum baráttu- og hátíðardegi verkafólks um heim allan.
Skorað er á Þingeyinga og aðra landsmenn að taka þátt í hátíðarhöldunum 1. maí þar sem við þurfum ekki síst á samstöðu að halda um þessar mundir.
Þingiðn
Framsýn
Starfsmannafélag Húsavíkur