Í þessum töluðum orðum er þing NNN að hefjast í Noregi en þingið er haldið í Osló. NNN stendur fyrir starfsmenn í matvælaframleiðslu í Noregi. Þingfulltrúar sem skipta hundruðum koma frá flestum héruðum Noregs. Meðal gesta á þinginu er Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar. Aðalsteinn fer á vegum Starfsgreinasambands Íslands á þingið og er heiðursgestur ásamt verkalýðsleiðtogum frá öðrum löndum sem eru í samstarfi við NNN í Noregi. Þingið stendur yfir í 5 daga, það er frá 7. – 11. apríl. Meðal þeirra sem halda hátíðarræðu á þinginu er Jens Stoltenberg forsætisráðherra Noregs. Ekki er vitað til þess að Aðalsteinn taki til máls á þinginu, en þess má til gamans geta, að á síðasta þingi NNN sem haldið var fyrir fjórum árum var hann beðinn um að tala fyrir hönd erlendu gestanna og þakka fyrir frábærar móttökur og gott þing.