Það voru ánægðir Húsvíkingar sem vöknuðu í morgun eftir samþykkt Alþingis á frumvörpum Steingríms J. Sigfússonar Atvinnumálaráðherra. Frumvörpin viðkoma uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Bakka og hafa þegar nokkur fyrirtæki lýst yfir áhuga sínum að byggja upp á Bakka.
Frumvarpið um kísilver á Bakka var samþykkt með 32 atkvæðum gegn fimm atkvæðum. Átta þingmenn greiddu ekki atkvæði. Auk þess var frumvarp um uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka samþykkt með 33 atkvæðum gegn fimm atkvæðum. Níu þingmenn greiddu ekki atkvæði.
Með samþykkt frumvarpana er búið að liðka fyrir því að hægt verði að byggja upp orkufrekan iðnað í Þingeyjasýslum. Næsta bið verður eftir fyrirtækinu PCC sem er með til skoðunar að reisa kísilver á Bakka. Þeir munu væntanlega taka ákvörðun í málinu í sumar. Taki fyrirtækið ákvörðun að hefja uppbyggingu er um að ræða afar jákvæða þróun fyrir Norðlendinga og þjóðina alla. Um er að ræða uppbyggingu sem skapar gjaldeyri og veitir auk þess hundruðum atvinnu og styrkir þannig samfélagið, ekki síst á Húsavík.
Ekki fengum við álver, en til skoðunar er að reisa kísilmálmverksmiðju á Bakka gangi áform þess efnis eftir. Það er eftir samþykkt Alþingis í nótt.
Það er mikil gleði á Húsavík í dag nú þegar fyrir liggur að frumvörpin eru í höfn. Eða eins og maðurinn sagði, þar sem tveir Húsvíkingar koma saman, þar er brosað!!!