Það var góður fundur hjá stjórn og trúnaðarmannaráði Framsýnar í gær og mikið ályktað. Hér kemur ályktun sem var samþykkt og varðar löggæslumál og framlög til löggæslumála í Þingeyjarsýslum:
Ályktun um löggæslumál
„Framsýn, stéttarfélag skorar á innanríkisráðherra að bregðast við áhyggjum Þingeyinga er varðar löggæslumál á svæðinu. Það verður best gert með því að auka framlög til löggæslumála þegar í stað.
Að mati Framsýnar er löggæsla í umdæminu undir öllum eðlilegum öryggiskröfum sem skapað hefur óöryggi meðal íbúa og fjölmargra ferðamanna sem leggja leið sína í Þingeyjarsýslur á hverju ári.
Þá eru lögreglumenn undir miklu vinnuálagi í sínum daglegu og krefjandi störfum.
Framsýn er umhugað um velferð lögreglumanna og gerir því alvarlegar athugasemdir við þeirra starfsskilyrði.
Lögreglumenn eiga til dæmis ekki að þurfa standa einir á vakt í stórum umdæmum sbr. umdæmi lögreglunar á Húsavík. Vinnuumhverfi lögreglumanna er vinnuveitandanum ekki til sóma, það er ríkinu.
Framsýn krefst þess að þegar í stað verði gripið til aðgerða til að tryggja eðlilega löggæslu í umdæmi lögreglunar á Húsavík með auknum framlögum til löggæslumála.“
Þingeyingar eiga góða lögreglumenn. Framsýn hefur áhyggjur af vinnuumhverfi þeirra og kallar eftir auknum framlögum til löggæslumála í umdæmi lögreglunnar á Húsavík.
Söguleg mynd. Það er ekki á hverjum degi sem maður nær mynd að tveimur lögreglumönnum á vakt í umdæmi lögreglunnar á Húsavík. Vegna niðurskurðar eru þeir oft einir á vakt.