Framsýn styrkir „Síldarstúlkuna“

Við Óskarsstöðina á Raufarhöfn  stendur fallegt listaverk til heiðurs síldarstúlkunum sem söltuðu niður síld á síldarárunum. Framsýn kom að því að styrkja gerð listaverksins um kr. 100.000,-.  Sköpun listaverksins  var samstarfsverkefni Ingibjargar Guðmundsdóttur listakonu frá Kópaskeri og  Björns Halldórssonar frá Valþjófsstöðum í Núpasveit við Öxarfjörð. Full ástæða er til að hvetja fólk til að heimsækja Raufarhöfn og heilsa upp á síldarstúlkuna sem starir út á hafið meðan hún bíður eftir næsta farmi af silfri hafsins.

Þess má geta að á sjöunda áratugnum var Raufarhöfn einn mesti síldarbærinn á Íslandi. Á þeim tíma voru allt að 11 síldarsöltunarstöðvar starfandi samtímis. Þá komu um 10% af tekjum þjóðarinnar frá Raufarhöfn. Íbúar voru hátt í 700 og á síldarvertíðinni streymdi aðkomufólk til Raufarhafnar í vinnu þannig að íbúatalan í þorpinu margfaldaðist. Síldarstúlkan sem er til minningar um síldarárin á Raufarhöfn er unnin í rekavið.

 Við höfnina á Raufarhöfn stendur þetta fallega listaverk. Framsýn kom að því að styrkja verkefnið.

Deila á