Það er óhætt að segja að sjaldan hafi komið eins margir við á Skrifstofu stéttarfélaganna á einum degi eins og í dag, laugardag. Undanskilinn er þó Öskudagurinn. Rétt er að taka fram að venjulega er lokað á laugardögum. Ástæðan er að í kvöld er árshátíð Norðlenska haldin á Húsavík og reiknað er með að árshátíðargestir verði vel á annað hundrað manns.
Gestirnir koma frá Húsavík, Akureyri og Reykjavík. Þrátt fyrir að árshátíðin hefjist formlega í kvöld stendur yfir dagskrá í allan dag sem tengist kvöldinu. Meðal annars áttu árshátíðargestir að leysa myndagátu sem fólst í því að láta mynda sig með formanni Framsýnar. Árshátíðargestum var skipt upp í nokkur keppnislið sem keppast við að leysa gátur dagsins sem m.a. fellast í því að finna formann Framsýnar og láta mynda sig með honum.
Þar sem formaður Framsýnar er að sjálfsögðu að vinna í dag hafa fjölmargir árshátíðargestir Norðlenska komið við á skrifstofunni og myndað sig með formanninum. Við það tækifæri hefur gestunum jafnframt verið boðið upp á kaffi og mæru. (Orðið“mæra“ er sérhúsvíkst og þýðir sælgæti.)
Allt á fullu á Skrifstofu stéttarfélaganna í dag, allir sem komu við voru í miklu keppnisskapi.
Þetta er allt að koma, ein þrautin var að búa til grænan hatt.
Hópar komu og fóru í dag.
Einar Örn var stoppaður þegar hann keyrði fram hjá Skrifstofu stéttarfélaganna áðan og beðinn um að mynda fyrir einn af hópunum sem kom við á skrifstofunni. Það er mikið fjör á Húsavík í dag.
Bragi sem starfar hjá Norðlenska á Akureyri var ótrúlega rólegur í dag þrátt fyrir alla keppnina. Hann fékk sér kaffi í rólegheitunum og spjallaði við formann Framsýnar meðan aðrir voru að drepast úr spenningi.
Makar og starfsmenn Norðlenska góða skemmtun í kvöld.