Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hafa olíufélög sem undirbúa leit á Drekasvæðinu óskað eftir því að Húsavík verði þjónustuhöfn fyrir borpalla. Umsókn um lóð hefur verið send til bæjarráðs Norðurþings. Fyrstu tvö sérleyfin voru afhent í byrjun janúar og merki sjást nú um að félögin séu byrjuð að undirbúa leitina. Fulltrúar annars leyfishafans, Íslensks kolvetnis, Faroe Petroleum og Petoro, hafa nú sótt um lóð við Húsavíkurhöfn undir aðstöðu til að þjónusta leitarborpalla.
Í fundargerð bæjarráðs Norðurþings kemur fram að óskað er eftir svæði til að geyma pípur og borstangir, svæði fyrir sementstanka og leðjutanka, lóð undir vöruhús og tengingum við vatn, olíu og rafmagn. Bæjarráð tekur jákvætt í erindið og býður umsækjendum til viðræðna við bæjaryfirvöld, segir í bókun.
Þorkell Erlingsson hjá Íslensku kolvetni segir að Húsavík sé eini staðurinn sem hópurinn hafi sótt um og að hún liggi afskaplega vel við. Þar sé að finna margskyns þjónustu eins og hótel, sjúkrahús og flugvöll og stutt sé til Akureyrar.
Athygli vekur að félögin taka Húsavík fram yfir staði eins og Vopnafjörð og Þórshöfn, sem liggja nær Drekasvæðinu, og segir Þorkell ástæðuna þá að meiri þjónusta sé í boði á Húsavík. Fjarðabyggð, Seyðisfjörður og Akureyri hafa einnig sóst eftir þjónustuhlutverki en með þessari umsókn er Húsavík orðinn fyrsti valkostur. (Framsyn/640/visir.is)
Góðar líkur eru á því að Húsavík verði þjónustubær við Drekasvæðið ef marka má áhuga leyfishafa. Þá eru fleiri góðar fréttir af atvinnumálum á Húsavík væntanlegar síðar í dag.