Verslanir Hagkaups, Kosts, Nóatúns og Víðis neita allar að veita neytendum eðlilegar og sjálfsagðar upplýsingar um verðlag í verslunum sínum með því að vísa verðtökufólki frá Verðlagseftirliti ASÍ út úr verslununum sínum. Ástæða er til þess að vara neytendur við að versla í þessum verslunum því ætla má að þær leiti skjóls til verðhækkana í því að útiloka fulltrúa neytenda úr verslunum sínum og gera þeim ókleift að sinna sjálfsögðu aðhalds- og upplýsingahlutverki sínu.
Verðlagseftirlitið gegnir nú mikilvægu hlutverki við eftirfylgni með samkomulagi sem ASÍ og SA undirrituðu við framlengingu kjarasamninga þann 21. janúar sl. Þar voru aðlar sammála um að beita sér fyrir aðgerðum til lækkunar verðlags m.a. með auknu aðhald að verðhækkunum.
Launafólki eru með þessu sendar kaldar kveðjur og ljóst að þessir aðilar ætla ekki að sýna samstöðu í því að halda hér verðbólgu í skefjum á komandi mánuðum. (Þessi frétt er á heimasíðu ASÍ, www.asi.is)