Dansað og spilað í upphafi íbúaþings

Um helgina stendur yfir íbúaþing á Raufarhöfn en þegar hafa verið haldnir tveir fundir með íbúum Raufarhafnar. Um er að ræða sameiginlegt verkefni Byggðastofnunar, Norðurþings, Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Háskólans á Akureyri. Framsýn hefur einnig komið að málinu og er formaður félagsins á staðnum.

Til umræðu í dag var staða Raufarhafnar og framtíðin, en fólksfækkun undanfarin ár og óvissa um framtíðina brennur eðlilega á íbúum og þeim aðilum sem tengjast staðnum eins og Framsýn, en stór hópur íbúa Raufarhafnar eru félagsmenn.

Umsjón með íbúaþinginu hefur Sigurborg Kr. Hannesdóttir, hjá ILDI, þjónustu og ráðgjöf.

Við upphaf þingsins var upplýst um stöðu þeirra mála sem verið hafa til umræðu á fyrri fundum, s.s. möguleika í sjávarútvegi, þróun SR svæðisins, eflingu ferðaþjónustu og ráðningu starfsmanns í þróunarverkefni.  Þá kom fram að Byggðastofnun og Norðurþing munu í sameiningu bera kostnað vegna starfsmanns og aðstöðu í eitt ár sem ráðinn verður sérstaklega í þetta verkefni. Starfsmanninum er m.a. ætlað fylgja eftir þeim hugmyndum sem vakna við vinnuna sem nú er í gangi og snýr að því að virkja heimamenn til góðra verka í samstarfi við aðra hagsmunaaðila.

Skilaboð þingsins munu hafa áhrif á þá valkosti sem Byggðastofnun, Norðurþing, Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga og Háskólinn á Akureyri munu taka til skoðunar í sínum ákvörðunum varðandi Raufarhöfn.  Einnig mun verkefnisstjórn koma skilaboðum þingsins á framfæri við ríkisstjórn, stofnanir og fyrirtæki sem hafa áhrif á þjónustustig og þróun byggðar á Raufarhöfn.

Gert er ráð fyrir að í lok febrúar verði síðan efnt til annars íbúafundar þar sem farið verður nánar yfir skilaboð þingsins og aðgerðir byggðar á þeim.

Þessi nálgun, að íbúar ræði málefni síns samfélags, stöðu og möguleika, er kjarninn í verkefninu um þróun byggðar á Raufarhöfn. Á þinginu í dag var allt til umræðu og mótuðu þátttakendur dagskrána sjálfir. Lagt var á stað með eftirfarandi efnisþætti inn í umræðuna í dag eftir hugarflug heimamanna í upphafi þingsins:

  • Atvinnumál
  • Raufarhöfn-miðstöð olíuleitar
  • Skólamál
  • SR/húsnæði-lóð
  • Samskipti íbúa við sveitarstjórn
  • Íþróttir og tómstundir/ungir-aldraðir
  • Borun eftir heitu vatni
  • Flugvöllur/ fái aukin verkefni
  • Nýsköpun
  • Opinber þjónusta

Þessir þættir sem og aðrir verða til umræðu á morgun en þingið heldur áfram í fyrramálið og stendur fram eftir degi í Grunnskóla Raufarhafnar. Þingið er opið íbúum Raufarhafnar.

Hátt í 50 manns komu saman í Grunnskóla Raufarhafnar í dag til að fjalla um málefni Raufarhafnar á íbúaþingi. Menn voru sammála um að vel hefði tekist til í dag en þingið heldur áfram á morgun. Eða eins og einn góður maður sagði: „Þetta er búið að vera skemmtilegur dagur, skemmtilegri en ég hélt“.  Morgundagurinn verður örugglega ekki síðri.

Þingið byrjaði með látum eða reyndar dansi. Við upphaf þingsins í dag var spilað fallega á harmonikku. Sigga og Reinhard stóðust ekki freistinguna og stigu fram og tóku dansspor við fögnuð viðstaddra. Væntanlega hefur Reinhard verð að æfa sig fyrir kvöldið en sagan segir að hann verði gestur á einu vinsælasta þorrablóti í sýslunni, það er á Þórshöfn í kvöld.

Það er fólk á öllum aldri á íbúaþinginu. Hér er félagi Guðmundur með fögrum snótum en þær eru Nanna og Karitas.

Það hafa margar góðar hugmyndir orðið til í dag.

Kvenfélagskonur hafa staðið vaktina í dag og séð til þess að þátttakendur fái orku til kalla fram góðar hugmyndir íbúum á Raufarhöfn til farsældar.

Svava Árnadóttir og Frida Elísabet eru hér að færa inn í tölvu niðurstöður úr hópavinnu sem verða til umræðu á morgun.

Ánægðar eftir daginn, Þorbjörg, Olga og Nanna.

Deila á