Félagsmenn aðildarfélaga ASÍ eru um 110 þúsund. Stór hluti þess hóps er á aldrinum 16-35 ára en á þeim aldri er ungt fólk að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum, öðlast mikilvæga starfsreynslu, stofna fjölskyldur og kaupa íbúðarhúsnæði svo eitthvað sé nefnt. Ekki síst þess vegna er mikilvægt að rödd þessa hóps heyrist innan Alþýðusambandsins og stéttarfélaga og því var ákveðið á þingi ASÍ 2010 að stofna vettvang fyrir ungt launafólk innan aðildarfélaga ASÍ. Fyrsta þing ASÍ-UNG var svo haldið á vormánuðum 2011.
Helstu verkefni ASÍ-UNG er að kynna ungu fólki á vinnumarkaði réttindi þeirra og skyldur og starfsemi stéttarfélaga. Þá er ASÍ-UNG ætlað að tryggja að hugað sé að stöðu og hagsmunum ungs launafólks í stefnu verkalýðshreyfingarinnar og að rödd unga fólksins heyrist í starfi og stefnumótun stéttarfélaganna.
Framsýn og Þingin buðu formanni og varaformanni ASÍ-UNG til Húsavíkur í gær þar sem þau voru gestir félaganna, en þau eru Guðni Gunnarsson og Hrefna Gerður Björnsdóttir.
Á fundinum í gær fóru þau yfir starfsemi og áherslumál ungliðahreyfingarinnar og svöruðu fjölmörgum spurningum frá fundarmönnum. Í lokin þökkuðu þau fyrir góðar samræður og sögðu fundinn hafa verið ánægjulegan. Hann væri sögulegur, það sem þetta væri fyrsti fundurinn sem þeim væri boðið á til að kynna starf ASÍ-UNG hjá stéttarfélögum innan ASÍ.
Til viðbótar má geta þess að Framsýn er með til skoðunar að stofna ungliðadeild innan félagsins. Verði það niðurstaðan verður málið tekið upp til umræðu og afgreiðslu á aðalfundi félagsins í mars.
Guðni og Hrefna eru hér ásamt þeim Kára Kristjánssyni og Einari Magnúsi Einarssyni sem báðir sitja í trúnaðarmannaráði Framsýnar og hafa auk þess verið fulltrúar Framsýnar á fundum og þingum á vegum ASÍ-UNG. Kári situr í varastjórn ASÍ-UNG.
Fólk hlustaði af athygli á forsvarsmenn ASÍ-UNG í gær enda fluttu þau áhugaverða tölu um starfsemi ungliðahreyfingarinnar innan Alþýðusambands Íslands.