Vaðlaheiðagöng til umræðu

Fulltrúar frá Einingu-Iðju og Framsýn komu saman til fundar á Húsavík í dag. Helsta umræðuefni fundarins voru væntanlegar framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng. Samkvæmt heimildum eru viðræður verkkaupa við ÍAV og svissneska fyrirtækið Matri um gerð gagnanna á logastigi. Undirskrift samninganna hefur verið ákveðin í Menningarhúsinu Hofi föstudaginn 1. febrúar.

Þar sem verkið verður bæði unnið á félagssvæði Framsýnar og Einingar- iðju töldu forsvarsmenn stéttarfélaganna ástæðu til að fara sameiginlega yfir málið. Markmiðið er að félögin fari saman í viðræður við verktakanna um stöðu starfsmanna sem koma til með að vinna við gerð ganganna.  Fundurinn var mjög vinsamlegur og ákveðið var að hefja sameiginlegar viðræður við verktakanna  og þau önnur stéttarfélög sem koma til með að eiga aðild að þessum mikilvægu framkvæmdum á Norðurlandi. Framsýn og Einnig- Iðja leggja mikið upp úr góðu samstarfi þeirra aðila sem koma til með að eiga aðild að verkefninu.

Reiknað er með að heildarfjöldi starfsmanna verði um 80 manns og verkið taki um þrjú og hálft ár.  Ljóst er að framkvæmdirnar munu hafa gríðarlega jákvæð áhrif á atvinnulífið á svæðinu, en margfeldisáhrif af svona framkvæmdum eru mjög mikil. Þá má geta þess að leiðin á milli Akureyrar og Húsavíkur mun styttast um 16 km og verða 75 km með tilkomu ganganna.

Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju kom til Húsavíkur til að funda með forsvarsmönnum Framsýnar. Með honum í för var Anna Júlíusdóttir varaformaður félagsins og Þorsteinn Arnórsson starfsmaður félagsins.

Frá Framsýn tóku Aðalsteinn Á. Baldursson formaður þátt í fundinum ásamt varaformanni Kristbjörgu Sigurðardóttir, stjórnarmanninum Torfa Aðalsteinssyni og Orra Frey Oddssyni starfsmanni Framsýnar.

Það var ekki bara alvara á fundinum. Þingeyingarnir sögðust skilja vel að Eyfirðingar vildu fá göng í gegnum Vaðlaheiði, þá loksins fengju þeir almennilegt loft. Þetta er að sjálfsögðu ekki rígur!!

Deila á