Dalakofinn á Laugum- Störfin og þjónustan mikilvæg fyrir samfélagið okkar

Starfsmenn Framsýnar – stéttarfélags voru á ferð um Þingeyjarsveit í gær og komu m.a. við á Laugum í S.-Þing. Í þessum vinalega þéttbýliskjarna Þingeyjarsveitar er fjölbreytt atvinnulíf, m.a. Framhaldsskólinn á Laugum, Þingeyjarskóli með grunnskóla- og leikskóladeild, iðnaðarmenn, Sparisjóður S.-Þing., stjórnsýsla Þingeyjarsveitar og vaxandi ferðaþjónusta.

Eitt af þessum vaxandi ferðaþjónustufyrirtækjum er Dalakofinn, sem hefur verið rekinn af þeim hjónum Þóru Fríði Björnsdóttur og Sigfúsi Haraldi Bóassyni. Dalakofinn skiptist í dagvöruverslun og veitingastað, sem býður upp á fjölbreytt úrval veitinga og þjónustu.

„Í hádeginu á virkum dögum er boðið upp á rétt dagsins, sem notið hefur vaxandi vinsælda hjá íbúum og ferðamönnum og einnig er alltaf boðið upp á fjölbreytta rétti af matseðli. Við leggjum áherslu á að veita heimfólki, nemendum framhaldsskólans og ferðmönnum upp á gott vöruúrval og lipra þjónustu. Við erum meðvituð um að verslunar- og veitingarekstur er ekkert sem menn verða ríkir á. Þessi þjónusta og störfin kringum hana er hins vegar mikilvæg fyrir samfélagið í Þingeyjarsveit og viðskiptavini okkar, þetta finnum við og það gefur okkur kraft og vilja til að halda ótrauð áfram, við höfum metnað og vilja til að gera enn betur.“ segja þau Haraldur, Gunnar og Þóra.

Nú starfa þrír starfsmenn í Dalakofanum og fleiri munu síðan bætast í hópinn í vor.

Dalakofinn er með rúmann opnunartíma, yfir veturinn er mánudaga – miðvikudaga kl. 10-18, fimmtudaga – laugardags er opið 10-20 og á sunnudögum er opið 12-17. Á sumrin er opið frá 9-22 alla daga vikunnar.

Rafnar Orri matgæðingur og starfsmaður Framsýnar gaf hamborgaranum í Dalakofanum 10+.

Það er frábær þjónusta í Dalakofanum. Hér er Haraldur kokkur og fyrrverandi stjórstjarna á knattspyrnuvellinum að þjóna ánægðum viðskiptavinum.

Deila á