Starfsfólk á rétt á vinnufatnaði

Skrifstofa stéttarfélaganna hefur undanfarið hvatt fyrirtæki til að huga vel að vinnufatnaði starfsmanna en samkvæmt ákvæðum kjarasamninga eiga atvinnurekendur að leggja til vinnufatnað í flestum tilvikum. Þá má geta þess að töluvert hefur verið um fyrirspurnir frá félagsmönnum varðandi skyldur atvinnurekenda til að leggja til vinnufatnað og öryggisskó. Almennt er það þannig að atvinnurekendum ber að leggja til vinnufatnað, öryggisskó og frekari öryggisfatnað ef með þarf. Ákvæðið er nokkuð breytilegt milli samninga og sumstaðar er heimild fyrir því að greiða fatapeninga í stað vinnufatnaðar. Ástæða er til að hvetja atvinnurekendur til að uppfylla ákvæði kjarasamninga varðandi skyldur þeirra til að leggja starfsmönnum í té vinnufatnað. Stéttarfélögin munu á næstu dögum fylgja þessum málum eftir með bréfi til atvinnurekenda.

 Í flestum kjarasamningum er ákvæði um skyldur atvinnurekenda til  að leggja starfsmönnum til vinnufatnað. Eins og sjá má á þessari mynd er vel búið að starfsmönnum Vísis á Húsavík. Skorað er á atvinnurekendur að fylgja eftir ákvæðum kjarasamninga og leggja starfsmönnum til þann vinnufatnað sem þeir eiga rétt á samkvæmt reglum og lögum.

Deila á