Nýjar reglur um innheimtu iðgjalda

Reglur um innheimtu iðgjalda á vegum stéttarfélaganna, Framsýnar og Þingiðnar,  hafa verið endurskoðaðar og tóku þær gildi 1. janúar 2013. Þær varða skil atvinnurekenda á kjarasamnings- og lögbundum iðgjöldum til stéttarfélaga. Helstu reglur eru eftirfarandi:

Reglur
Um innheimtu iðgjalda á vegum Framsýnar og Þingiðnar

1. gr. Skyldur vinnuveitenda
Samkvæmt gildandi kjarasamningum taka atvinnurekendur að sér innheimtu félagsgjalda aðal- og aukafélaga Þingiðnar og Framsýnar í samræmi við reglur félaganna, hvort sem um er að ræða hlutfall af launum eða fast gjald. Þessum gjöldum skal skila mánaðarlega til félaganna og er eindagi síðasta virka dag næsta mánaðar á eftir. 

2. gr. Gjalddagi iðgjalda
Samkvæmt lögum skal iðgjaldagreiðslutímabil (launatímabil) eigi vera lengra en mánuður og skal gjalddagi vera tíunda næsta mánaðar. Eindagi skal vera síðasti dagur sama mánaðar og iðgjald fellur í gjalddaga (dæmi: gjalddagi júnílauna er 10. júlí og eindagi síðasti dagur júlímánaðar. Ef iðgjöld eru ekki greidd fyrir eindaga, reiknast á þau vanskilavextir frá gjalddaga til greiðsludags.

3. gr. Ítrekun I vegna vanskila
Atvinnurekendur sem ekki greiða tilskilin gjöld samkvæmt 1. gr. þessara reglna  skal eigi síðar en tveimur mánuðum eftir eindaga skuldar send ítrekunarbréf varðandi skuld fyrirtækisins við stéttarfélögin. Gefinn skal 15 daga frestur til að ganga frá skuldinni með fullnaðargreiðslu eða með skriflegu samkomulagi við stéttarfélögin. Allar greiðslur sem berast stéttarfélögunum ráðstafast á elstu skuldir og vexti fyrst og því er ætíð yngsta skilagreinin ógreidd.

4. gr. Ítrekun II vegna vanskila
Greiði atvinnurekandi ekki eða gangi frá skriflegu samkomulagi við stéttarfélögin um skuld viðkomandi fyrirtækis innan þriggja mánaða frá eindaga upphaflegu skuldarinnar skal krafan send til lögfræðistofu stéttarfélaganna til innheimtu.  Áður en það er gert skal það borið undir forstöðumann Skrifstofu stéttarfélaganna til samþykktar.

Deila á