Ályktað um olíuleit á Drekasvæðinu

Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar kom saman til fundar í kvöld. Mörg mál voru á dagskrá fundarins og verður fjallað um þau á heimasíðunni næstu daga. Við byrjum á að fjalla um atvinnumál og væntingar Framsýnar til Drekasvæðisins.

Fundurinn samþykkti að senda frá sér ályktun um leit og rannsóknir á vinnslu olíu og gasi á Drekasvæðinu. Fundarmenn töldu mikilvægt að Húsavík og Raufarhöfn væru með í umræðunni sem hentugur þjónustustaðir fyrir væntanleg umsvif á Drekasvæðinu verði niðurstaðan að setja upp þjónustukjarna á Íslandi. Þessir tveir þéttbýlisstaðir eru á félagssvæði Framsýnar. Ályktunin er eftirfarandi:

Ályktun
Um olíuleit á Drekasvæðinu 

„Framsýn, stéttarfélag fagnar ákvörðunum sem miða að því að hefja leit og rannsóknir á vinnslu olíu og gasi á Drekasvæðinu við Jan Mayen-hrygg innan íslensku lögsögunnar. 

Umsvifin sem framundan eru á Drekasvæðinu kalla á mikla þjónustu í landi. Landfræðilega er ljóst að sú uppbygging kemur til með að verða á Norðausturlandi. 

Framsýn leggur til að stjórnvöld beiti sér fyrir því að þjónustumiðstöð fyrir olíuleit, tengdar rannsóknir og síðar mögulega olíuvinnslu á Drekasvæðinu rísi á Raufarhöfn með tengingu til Húsavíkur og Þórshafnar. 

Lega Raufarhafnar, góð hafnaraðstaða og gott landrými gerir svæðið ákjósanlegt fyrir starfsemina. Þá er stutt í öfluga þjónustu og góðar flugsamgöngur á Húsavík við höfuðborgarsvæðið. Fyrir liggur að Raufarhöfn hefur átt undir högg að sækja og því yrði kærkomið fyrir svæðið að þessi þekkti gamli síldarbær verði miðstöð leitar og rannsókna á olíu í landhelgi Íslendinga.“

 

Deila á