Alþýðusamband Íslands boðaði í gær til formannafundar í Reykjavík um forsendur gildandi kjarasamninga og næstu skref. Fyrir liggur að flestar þær forsendur sem samningarnir byggja á eru þegar brostnar. Forseti ASÍ, Gylfi Arnbjörnsson, fór yfir stöðu mála og viðræður sambandsins við Samtök atvinnulífsins sem hafa skilað litlu sem engu. Hann lagði áherslu á að forsvarsmenn stéttarfélaganna færu heim og funduðu með sínu baklandi varðandi næstu skref.Fyrir liggur að verkalýðshreyfingin verður að taka ákvörðun fyrir kl. 16:00 þann 21. janúar hvort kjarasamningunum verður sagt upp eða ekki. Verði samningunum ekki sagt upp gilda þeir til 31. janúar 2014.
Eftir yfirferð forseta ASÍ var orðið gefið frjálst. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, var einn af þeim sem tóku til máls á fundinum. Í máli hans lagði hann áherslu á mikilvægi þess að ná niður verðbólgunni og komið yrði á stöðuleika í þjóðfélaginu. Það væri besta kjarabótin auk þess að taka á skuldavanda heimilanna. Ömurlegt væri til þess að vita að þrátt fyrir að laun hefðu almennt hækkað um 22% á Íslandi á síðustu árum meðan laun á Norðurlöndunum hefðu hækkað um 6-8% væri staðan hjá launafólki mun verri á Íslandi. Helsta ástæðan væri óstöðuleiki í þjóðfélaginu sem viðhéldi okkar helsta óvini, verðbólgunni.
Hann sagði jafnframt ánægjulegt að heyra og sjá að aðrir verkalýðsforingjar væru farnir að sjá ljósið sem hefði verið til staðar árið 2011 þegar síðustu kjarasamningar voru gerðir. Þá hefði verkalýðshreyfingin verið í dauðafæri að sækja fram í kjarabaráttu félagsmanna innan Alþýðusambandsins en því miður ekki notfært sér stöðuna í þaula. Nefndi hann sem dæmi góðan hagnað í sjávarútvegi undanfarin ár og þá væri staðan í öðrum atvinnugreinum víða mjög góð. Þrátt fyrir það hefði ekki verið samstaða um að krefja atvinnurekendur um að greiða starfsmönnum hærri laun árið 2011 út samningstímann til 2014.
Varðandi stöðuna í dag, taldi Aðalsteinn hagstæðast fyrir land og þjóð að atvinnurekendur kæmu til móts við kröfur verkafólks með viðbótarhækkunum þann 1. febrúar nk. en þá eiga laun að hækka almennt um 3,25%. Reyndar hækka kauptaxtar LÍV og Starfsgreinsambands um kr. 11.000,- á mánuði. Þannig gætu Samtök atvinnulífsins stuðlað að því með verkalýðshreyfingunni að ekki þurfi að koma til uppsagnar á samningum síðar í þessum mánuði með tilheyrandi óvissuástandi.
Þá sagði formaður Framsýnar að það gengi ekki upp að Alþýðusambandið væri í fýlu við stjórnvöld, það skilaði engu fyrir verkafólk og kæmi illa við félagsmenn aðildarfélaga sambandsins. Skoraði hann á forsvarsmenn ASÍ að endurskoða sína afstöðu til stjórnvalda og vinna í því að skapa traust milli aðila að nýju.
Að lokum lagði hann áherslu á að stéttarfélögin færu nú þegar að undirbúa næstu kjarasamningsgerð.
Þess má geta til viðbótar að stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar sem jafnframt er samninganefnd félagsins hefur verið boðuð til fundar á fimmtudaginn til að fara yfir stöðu mála. Þá hefur formaður Framsýnar fengið mjög góð viðbrögð við innleggi sínu á formannafundinum frá öðrum formönnum og starfsmönnum stéttarfélaga sem voru á fundinum. Sérstaklega er snýr að mikilvægi þess að gott samstarf sé á hverjum tíma milli sambandsins og stjórnvalda. Bylgjan fjallaði í morgun um formannafundinn. Gestir Bylgjunar voru félagarnir, Aðalsteinn og Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness. Hægt er að hlusta á viðtalið með því að fara inn á heimasíðu Bylgjunar. http://vefutvarp.visir.is/upptokur?itemid=16172