Heilsum nýju ári með bros á vör!

Framsýn- stéttarfélag  óskar félagsmönnum og landsmönnum öllum árs og friðar og farsældar á komandi ári. Þá fagnar félagið þeim könnunum og úttektum sem gerðar hafa verið á starfsemi stéttarfélaga og staðfesta að Framsýn er eitt öflugasta stéttarfélag landsins.

Úttekt Starfsgreinasambands Íslands 2012:
 „ Þegar starfsemi, þjónusta og rekstur  Framsýnar er skoðaður er ljóst að félagið er mjög vel rekið og það veitir félagsmönnum sínum almennt mjög góða þjónustu og réttindi. Í raun er ekki hægt að benda á margt sem hægt er að bæta.“ 

Jafnframt kemur fram að fjárhagsleg staða sjúkra- og félagssjóðs félagsins sé sú besta meðal aðildarfélaga SGS. 

Þá standi félagið sig mjög vel í upplýsinga- og fræðslumálum og haldi úti öflugustu heimasíðu stéttarfélags innan Alþýðusambands Íslands. 

Launakostnaður og rekstur þjónustuskrifstofu sé með því lægsta sem gerist innan SGS. Þetta er áhugaverður punktur í ljósi þess kraftmikla starfs sem unnið er á vegum Framsýnar- stéttarfélags.

Könnun Starfsgreinasambands Íslands:
Starfsgreinasamband Íslands fékk viðurkenndan aðila til að gera könnun á viðhorfi félagsmanna til aðildarfélaga sambandsins. Niðurstaðan er frábær fyrir Framsýn en félagið kom best út allra félaga. Niðurstaðan varðandi Framsýn er eftirfarandi: 

 96% voru ánægðir eða frekar ánægðir með starfsemi Framsýnar
4% tóku ekki afstöðu
0% voru óánægðir 

Niðurstaða Fræðsludeildar MFA:
Fræðsludeild MFA sem er innan ASÍ var fengin til að taka út starfsemi Framsýnar. Kallaður var til fjölmennur hópur félagsmanna til að fara yfir starfssemina og greina stöðu félagsins. Í samantekt Fræðsludeildar MFA segir:

“Það var afskaplega ánægjulegt að sjá hvernig andinn er í félaginu, hvað allir eru ánægðir með félagið sem segir manni, að vel er haldið utan um starfsemi þess. Niðurstöður hópavinnunnar í öllum umræðunum fjórum voru alltaf jákvæðar. Við hópstjórarnir vissum reyndar fyrirfram að mikil ánægja er með starfið í félaginu og starfsmenn þess, en þessum gríðarlega góðu niðurstöðum áttum við ekki von á.”

Með þetta góða veganesi siglum við inn í nýtt ár full bjartsýni með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi.

Framsýn- stéttarfélag

Þingeyingar geta verið stoltir af félaginu sínu sem er samkvæmt úttektum og könnunum eitt virtasta og öflugasta stéttarfélag landsins.

 

Deila á