Þá er lokið síðasta fundi ársins hjá Framsýn stéttarfélagi en sjómenn innan félagsins héldu aðalfund deildarinnar síðasta fimmtudag. Almennt hefur starfsemi og rekstur félagsins gengið vel á árinu. Starfsgreinasamband Íslands, sem Framsýn á aðild að ásamt 18 öðrum stéttarfélögum, gerði úttekt á starfsemi aðildarfélaga sambandsins í haust. Innan Starfsgreinasambandsins eru um 50.000 félagsmenn. Úttektin er afar glæsileg fyrir Framsýn og jafnframt ánægjuleg fyrir félagsmenn.
Góð staða félagsins tryggir félagsmönnum Framsýnar góða þjónustu og ein bestu réttindi sem þekkjast hjá stéttarfélögum á Íslandi. Í úttekt Starfsgreinasambandsins segir m.a. „ Þegar starfsemi, þjónusta og rekstur Framsýnar er skoðaður er ljóst að félagið er mjög vel rekið og það veitir félagsmönnum sínum almennt mjög góða þjónustu og réttindi. Í raun er ekki hægt að benda á margt sem hægt er að bæta.“
Í úttektinni kemur jafnframt fram að rekstur Framsýnar sé mjög góður og fjárhagsleg staða þess sé sú besta meðal aðildarfélaga SGS. Bæði hvað varðar sjúkra- og félagssjóð.
Þá segir í úttektinni að félagið sé með mjög öflugt félagsstarf og réttindi félagsmanna í sjúkra- og orlofssjóði séu jafnframt til fyrirmyndar. Félagið standi sig mjög vel í upplýsinga- og fræðslumálum og haldi úti öflugustu heimasíðu stéttarfélags innan Alþýðusambands Íslands. Launakostnaður og rekstur þjónustuskrifstofu sé með því lægsta sem gerist innan SGS. Þetta er áhugaverður punktur í ljósi þess kraftmikla starfs sem unnið er á vegum Framsýnar- stéttarfélags. Lengi vel var félagið með opna skrifstofu í níu tíma á dag.
Þessi úttekt Starfsgreinasambandsins staðfestir enn frekar fyrri kannanir sem gerðar hafa verið og við koma starfsemi stéttarfélaga innan sambandsins að Framsýn er eitt öflugasta stéttarfélag landsins.
Að sjálfsögðu er það vilji stjórnar og starfsmanna félagsins að halda merki félagsins á lofti og halda áfram á sömu braut. Það er að reka félagið vel með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi. Þá er gleðilegt til þess að vita að mjög auðvelt er að fá fólk til að starfa í stjórnum, ráðum og nefndum á vegum félagsins.
Þegar horft er yfir síðasta starfsár kemur ýmislegt upp í hugann varðandi verkefni sem félagið hefur unnið að. Mikil ásókn hefur verið í Framsýn frá launþegum sem starfa ekki á félagssvæðinu. Ákveðnar reglur innan ASÍ koma í veg fyrir að menn geti valið sér stéttarfélög. Ef opnað yrði á aukið frjálsræði er ljóst að töluvert myndi fjölga í Framsýn.
Félagið lagði í mikla fjárfestingu á árinu, þegar ráðist var í kaup á fjórum glæsilegum íbúðum í Þorrasölum í Kópavogi ásamt Þingiðn. Íbúðir félaganna á Freyjugötunni í Reykjavík voru seldar í staðinn. Framsýn á áfram íbúð félagsins í Asparfelli. Félögin eru því nú með fimm íbúðir í notkun en voru með fjórar áður. Almenn ánægja er meðal félagsmanna með nýju íbúðirnar.
Félagið kom að því að styrkja mörg verkefni á árinu, bæði stór og smá. Öll eru þau á félagssvæðinu. Í því sambandi er rétt að nefna eitt áhugavert verkefni sem Lionsklúbbur Húsavíkur hefur staðið fyrir í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga og varðar skimun fyrir ristilkrabbameini. Framsýn hefur komið að því að styrkja þetta verkefni fjárhagslega og verður svo í fimm ár, það er meðan verkefnið er í gangi.
Hátíðarhöld stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum sem haldin voru í Íþróttahöllinni á Húsavík 1. maí voru glæsileg að venju. Fjöldi fólks lagði leið sína á samkomuna.
Á árinu náði Framsýn samningi við Landssamband smábátaeigenda sem voru mikil gleðitíðindi. Áður hafði ekki verið í gildi sérstakur kjarasamningur milli LS og Framsýnar eða annarra sjómannafélaga í landinu fyrir smábátasjómenn. Því var um tímamótasamning að ræða. Þá hafa fulltrúar Framsýnar barist fyrir því að gerður verði kjarasamningur milli félagsins og hvalaskoðunarfyrirtækja á Húsavík. Því miður hefur það ekki gengið eftir en nú hafa fyrirtækin veitt Samtökum atvinnulífsins umboð til að hefja viðræður við Framsýn um gerð kjarasamnings. Óskandi er að það leiði til þess að gerður verði kjarasamningur milli þessara aðila fyrir vorið þegar hvalaskoðunarferðirnar hefjast á ný.
Atvinnuástandið á árinu 2012 í Þingeyjarsýslum hefur verið með ágætum miðað við síðustu ár frá hruni og atvinnuleysið því minna en verið hefur. Ferðaþjónustan hefur blómstrað sem og fiskvinnslan, og sjávarútvegurinn á svæðinu. Flugfélagið Ernir hóf að fljúga áætlunarflug milli Reykjavíkur og Húsavíkur á árinu sem styrkir atvinnulífið og búsetuskilyrði í héraðinu. Þá skipta kjötvinnslufyrirtækin, fiskeldisfyrirtækin og starfsemi Flytjanda á Húsavík einnig miklu máli svo ekki sé talað um opinber störf, sérstaklega á Húsavík. Þrátt fyrir að ekki sé mikið um stór verkefni á svæðinu í byggingaiðnaði hefur byggingaverktökum tekist að halda úti starfsemi á árinu og því hefur lítið verið um atvinnuleysi hjá iðnaðarmönnum. Sama á við um Vélaverkstæðið Grím á Húsavík, þar á bæ hafa stjórnendur verið duglegir að útvega verkefni fyrir starfsmenn fyrirtækisins.
Ekki er annað að sjá en að árið 2013 verði Þingeyingum hliðholt og hér verði frekari atvinnuuppbygging á komandi ári. Spáð er uppbyggingu í ferðaþjónustunni í Þingeyjarsýslum. GPG-Fiskverkun mun auka starfsemi á Raufarhöfn sem skiptir verulega miklu málið fyrir íbúana á staðnum. Þá ætla ég að leyfa mér að vera bjartsýnn, að með vorinu verði tekin ákvörðun um að hefja framkvæmdir á Bakka sem snúa muni neikvæðri byggðaþróun á svæðinu í jákvæða á næstu árum þar sem um 400 manns koma að uppbyggingu Kísilmálmverksmiðju á Bakka. Verði verksmiðjan að veruleika munu um 150 manns fá vinnu í verksmiðjunni. Þá eru ótalin þau hliðarstörf sem verða til.
Á síðasta ári hætti Kristbjörg Gunnarsdóttir að þrífa á Skrifstofu stéttarfélaganna. Ástæða er til að þakka henni fyrir vel unnin störf. Í hennar stað var ráðin Þórunn Ágústa Kristjánsdóttir. Þá var Linda M. Baldursdóttir ráðin sem þjónustufulltrúi við félagsmenn en álag á starfsmenn hefur verið mjög mikið og því var tekin ákvörðun um að laga vinnuumhverfi starfsmanna með því að ráða inn starfsmann auk þess sem nýja starfsmanninum er að sjálfsögðu ætlað að þjónusta félagsmenn sem allra best.
Það er full ástæða til að þakka starfsmönnum félagsins og því kraftmikla fólki sem gegnir trúnaðarstörfum fyrir félagið á vinnustöðum sem trúnaðarmenn eða í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum Framsýnar fyrir frábær störf. Félagið væri ekki það sem það er í dag nema fyrir ykkar óeigingjarna framlag í þágu Framsýnar- stéttarfélags. Hafið kærar þakkir fyrir það.
Að lokum er ánægjulegt að segja frá því að Framsýn réð ungan mann, Rafnar Orra Gunnarsson, í sérverkefni í nokkra mánuði. Rafnari Orra er ætlað að fara á vinnustaði á félagsvæði Framsýnar og mynda félagsmenn við störf. Síðan verður búið til heimildar myndband um starfsemi félagsins með íslensku tali auk þess sem það verður aðgengilegt á ensku og pólsku. Ekkert stéttarfélag á Íslandi hefur gert þetta áður svo vitað sé.
Nú er mál að linni, ég vil óska félagsmönnum og öðrum landsmönnum farsældar á komandi ári. Verum góð við hvert annað og síðast en ekki síst verum jákvæð, það er gott veganesti inn í árið 2013. Gleðilegt nýtt ár kæru félagar!!
Með áramótakveðju!
Aðalsteinn Á. Baldursson
Formaður Framsýnar